Sport

Varð fyrir meiðslum á blaðamannafundi og þurfti að draga sig úr keppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Petra Kvitova sést hér í leiknum umrædda á móti hinni belgísku Greet Minnen. Kvitova hafði komist í undanúrslit á Opna franska meistaramótinu árið 2020.
Petra Kvitova sést hér í leiknum umrædda á móti hinni belgísku Greet Minnen. Kvitova hafði komist í undanúrslit á Opna franska meistaramótinu árið 2020. AP/Thibault Camus

Blaðamannafundirnir á Opna franska risamótinu ætla að vera afdrifaríkir fyrir bestu tenniskonur heims. Naomi Osaka hætti keppni vegna þess að hún treysti sér ekki til að mæta á þá og þá meiddist Petra Kvitova þegar hún var i viðtölum við blaðamenn.

Kvitova sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem kemur fram að hún sé hætt keppni á Opna franska meistaramótinu í ár vegna ökklameiðsla.

Það eru hins vegar kringumstæðurnar sem eru sérstakar. Kvitova vann hina belgísku Greet Minnen í fyrstu umferð keppninnar og slapp ómeidd í gegnu þann leik. Eftir leikinn hitti hún blaðamenn og varð þá fyrir því óláni að detta og togna illa á ökkla.

„Það eru mér mikil vonbrigði að tilkynna það að ég þurfi að draga mig úr keppni á Roland Garros. Á blaðamannafundi eftir leikinn þá datt ég og meiddist á ökkla. Eftir að hafa farið í myndatöku og rætt við mitt teymi þá varð ég því miður að taka þá erfiðu ákvörðun að það yrði óskynsamlegt að halda áfram. Þetta er ótrúleg óheppni en ég verð sterk og reyni mitt besta til að ná mér fyrir grastímabilið,“ sagði Petra Kvitova í umræddri tilkynningu.

Kvitova er 31 árs gömul og var númer ellefu í styrkleikaröð Opna franska meistaramótsins í ár en hún hefur unnið tvo risatitla á ferlinum.

Kvitova átti að mæta Elenu Vesnina í annarri umferðinni í dag en ekkert verður af þeim leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×