Erlent

Kalla eftir því að Bol­sonaro verði á­kærður fyrir em­bættis­glöp

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mótmælendur draga hér á eftir sér ófrýnilega uppblásna skopmynd af Bolsonaro.
Mótmælendur draga hér á eftir sér ófrýnilega uppblásna skopmynd af Bolsonaro. EPA-EFE/Joédson Alves

Þúsundir hafa leitað út á götur Brasilíu til þess að mótmæla viðbrögðum Jair Bolsonaro, forseta landsins, og ríkisstjórn hans við kórónuveirufaraldrinum. Mótmælendur í höfuðborginni söfnuðust saman fyrir utan þinghúsið í gær og kölluðu eftir því að forsetinn verði ákærður fyrir embættisglöp.

Vinsældir Bolsonaro hafa snarminnkað eftir að faraldurinn skall á og gagnrýnendur segja að viðbrögð hans og ríkisstjórnarinnar hafi ekki verið í samræmi við alvarleika sóttarinnar. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Rétt tæplega 460 þúsund hafa dáið af völdum kórónuveirunnar í Brasilíu, svo vitað sé. Hvergi annars staðar nema í Bandaríkjunum hafa svo margir farist af völdum veirunnar. Þá er landið í þriðja sæti hvað varðar smittölur, en meira en 16 milljónir hafa greinst smitaðir af veirunni.

Þúsundir mótmæltu í helstu borgum Brasilíu í gær.EPA-EFE/Fernando Bizerra

Öldungadeild brasilíska þingsins hefur þegar efnt til rannsóknar á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar og forsetans við faraldrinum og bóluefnaáætluninni sem hann stendur fyrir. Aðeins hefur tekist að bólusetja 21 prósent landsmanna með fyrri skammti bóluefnisins og dreifingaráætlunin er talin taka of langan tíma.

Stjórnarandstöðuflokkar, stéttafélög og aðgerðasinnar hafa sakað forsetann um að viljandi hægja á dreifingu bóluefnisins án þess að líta til afleiðinga þess. Faraldurinn hefur nær ekkert hægt á sér frá því hann barst til Brasilíu sem hefur nær knéfellt heilbrigðiskerfið í landinu.

Bolsonaru hefur á undanförnu ári lagst gegn hertum takmörkunum, útgöngubönnum og fleiru, og haldið því fram að áhrifin sem það hefði á efnahagslífið hefði verri afleiðingar en veiran sjálf á þjóðina. Hann hefur ítrekað sagt Brasilíumönnum að „hætta að væla“ vegna ástandsins.


Tengdar fréttir

Rannsaka viðbrögð Bolsonaro við faraldrinum

Brasilíska þingið rannsakar nú viðbrögð ríkisstjórnar Jairs Bolsonaro forseta við kórónuveirufaraldrinum sem hefur orðið að minnsta kosti 391.000 manns að bana í landinu. Bolsonaro segist engar áhyggjur hafa af rannsókninni jafnvel þó að hún gæti leitt til þess að hann yrði sviptur embætti.

Verður fjórði heil­brigðis­ráð­herrann á einu ári

Hjartalæknirinn Marcelo Queiroga mun taka við embætti heilbrigðisráðherra Brasilíu og verður hann sá fjórði til að gegna embættinu á einu ári. Ekki hafa jafnmargir látist frá upphafi faraldursins og í síðustu viku



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×