Innlent

Ekkert í störfum Kristjáns Þórs sem gefur til­efni til van­trausts

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Katrín hefur áður þurft að svara því hvort hún beri fullt traust til ráðherrans en það var þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hóf frumkvæðisathugun á hæfi hans eftir Samherjaskjölin.
Katrín hefur áður þurft að svara því hvort hún beri fullt traust til ráðherrans en það var þegar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hóf frumkvæðisathugun á hæfi hans eftir Samherjaskjölin. vísir/vilhelm

Katrín Jakobs­dóttir forsætisráðherra segist ekki hafa séð neitt í störfum Kristjáns Þórs Júlíus­sonar, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra Sjálf­stæðis­flokksins, sem gefi henni til­efni til að van­treysta honum. Bjarna Bene­dikts­syni, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, og for­manni Sjálf­stæðis­flokksins finnst ekki eðli­legt að hann tjái sig um samskipti Kristjáns við meðlim svokallaðrar „skæru­liða­deildar“ Sam­herja.

Nafn Kristjáns Þórs kom fram í sam­skiptum „skæru­liða­deildarinnar“ sem Stundin og Kjarnin birtu í vikunni og vísuðu með­limir hennar meðal annars í Kristjáns sem eins þeirra sem „stæðu í kringum“ Sam­herja í tengslum við á­sakanir um mútur og spillingu Sam­herja í Namibíu. Stundin greindi frá þessu.

Þá kom fram að Páll Stein­gríms­son skip­stjóri hefði verið í sam­skiptum við Kristján Þór en Páll var skrifaður fyrir ýmsum skoðana­greinum sem al­manna­tengill Sam­herja og lög­maður skrifuðu flestar og voru sam­þykktar af helstu stjórn­endum út­gerðarinnar. Í greinunum var frétta­flutningur af Namibíu­málinu dreginn í efa og ráðist per­sónu­lega á þá blaða­menn sem upp­lýstu um málið.

Sjálfstæðisflokkurinn velji sína ráðherra sjálfur

Kristján Þór lýsti sig van­hæfan til að fjalla um mál sem sneru beint að Sam­herja í desember 2019 eftir að Namibíu­málið kom upp. Hann hefur lengi mælst sem langóvin­sælasti ráð­herra ríkis­stjórnarinnar í könnunum Maskínu en í nýjustu könnuninni, sem birtist fyrir rúmum mánuði, voru að­eins níu prósent lands­manna á­nægð með störf hans.

Vísir spurði Katrínu hvað henni þætti um að ráð­herra hennar væri svo gríðarlega óvinsæll meðal al­mennings og að nafn hans kæmi sí­fellt upp í um­fjöllun um tengsl við fyrir­tækið Sam­herja. Stjórn­skipunar- og eftir­lits­nefnd fór í frum­kvæðis­at­hugun á hæfi Kristjáns í desember 2019 en meiri­hluti nefndarinnar á­kvað að hætta henni þrátt fyrir mót­bárur minni­hlutans.

„Nú er það þannig að hver og einn flokkur velur sína ráð­herra og þannig er það bara. En eins og ég segi þá hef ég ekki séð neitt í hans störfum sem gefur mér til­efni til að van­treysta honum,“ sagði Katrín við Vísi.

Vísir heyrði þá í for­manni Sjálf­stæðis­flokksins og fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra Bjarna Bene­dikts­syni til að ræða málið. Hann kvaðst ekki hafa lesið um­fjöllun Stundarinnar og ekki vita um hvað málið snerist. Eftir laus­lega rakningu blaða­manns á því að nafn Kristjáns hefði komið upp í sam­tölum „skæru­liða­deildarinnar“ og að skip­stjórinn Páll hefði vísað í sam­töl við Kristján vildi Bjarni lítið segja.

Bjarna þótti ekki eðlilegt að tjá sig um málið.vísir/vilhelm

Spurður hvað honum þætti um að Kristján hefði verið í sam­skiptum við Pál sagði hann: „Mér finnst rétt að þú snúir þér bara að þeim sem eiga í hlut og spyrja þá hvað er til í þessu. Er það ekki nær? Er ekki til­gangs­laust að spyrja mig að því? Hvernig í ó­sköpunum á ég að tjá mig um það?“

Óljóst hvort ráðherrann gaf góð ráð

Vísir hefur ekki náð tali af Kristjáni Þór þrátt fyrir í­trekaðar til­raunir síðustu tvo daga. Í sam­tali við Ríkis­út­varpið eftir ríkis­stjórnar­fund í morgun sagðist Kristján þó hafa átt í sam­skiptum við skip­stjórann. Hann segist hafa þekkt Pál síðan hann var nemandi í Stýri­manna­skólanum á Dal­vík.

Vísir hefur ekki náð í Kristján Þór þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.vísir/vilhelm

„Ég hef aldrei verið í sam­skiptum við neina skæru­liða­deild og hef ekki hugsað mér að taka upp slíkt verk­lag,“ sagði hann. Þegar hann var spurður beint út hvort hann hefði verið í sam­skiptum við um­rætt fólk eða stjórn­endur fyrir­tækisins og gefið þeim góð ráð eftir síðustu upp­ljóstranir í málinu sagði hann:

„Eins og ég segi, ég þekki Pál Stein­gríms­son mjög vel og hef marg­oft talað við Pál eins og marga aðra starfs­menn í þessu fyrir­tæki, eins og aðra kjós­endur í Norð­austur­kjör­dæmi eða annars staðar á landinu. Ég hef talað við trillu­karl hér og bónda þar og svo fram­vegis.“

Hann hefur ekki svarað því í hverju sam­skipti hans við Pál fólust ná­kvæm­lega en í sam­tölum skæru­liða­deildarinnar sem Stundin birti er Kristján einn þeirra sem voru á út­hringilista Páls, sem hann kvaðst hafa fengið frá for­stjóra Sam­herja, Þor­steini Má Baldvinssyni, til að reyna að hafa á­hrif á próf­kjör Sjálf­stæðis­flokksins í Norð­austur­kjör­dæmi. 

Þar kemur fram að Sam­herji vilji alls ekki að Njáll Trausti Frið­berts­son þing­maður taki fyrsta sæti í kjör­dæminu á eftir Kristjáni Þór sem er að hætta á þingi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.