Innlent

Varnar­­garðarnir alls ekki sóun ef Reykjanesið hefur vaknað til lífs

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hörn Hrafnsdóttir, umhverfis- og byggingaverkfræðingur hjá Verkís, við eystri varnargarðinn í syðri Meradal í dag.
Hörn Hrafnsdóttir, umhverfis- og byggingaverkfræðingur hjá Verkís, við eystri varnargarðinn í syðri Meradal í dag. Egill Aðalsteinsson

Þó að varnar­­garðarnir á gos­­stöðvunum reynist gagns­lausir í bar­áttunni við að halda hrauninu frá inn­viðum á Reykjanesi telur Hörn Hrafns­dóttir, um­­hverfis- og byggingar­­verk­­fræðingur hjá Verkís sem stýrir gerð varnar­­garðanna, að reynslan af verk­efninu verði gífur­­lega gagn­­leg í fram­­tíðinni ef eld­­stöðvar á Reykja­nesi hafa vaknað til lífsins.

Jarð­eðlis­fræðingurinn Páll Einars­son gagn­rýndi fram­kvæmdirnar í kvöld­fréttum Stöðvar 2 á þriðju­dag eftir að ríkis­stjórnin sam­þykkti að verja tuttugu milljónum í þær. Hann sagði þetta sóun og að engin leið væri að stöðva hraunið með varnar­görðum.

„Já, já og hann hefur alveg rétt fyrir sér að ýmsu leyti,“ sagði Hörn við Stöð 2 þegar hún var innt eftir við­brögðum við gagn­rýni Páls. „Þetta er í rauninni spurningin um það að við erum bara að reyna að tefja fram­rásina, kaupa okkur meiri tíma og kannski hættir það í milli­tíðinni þannig við fáum það ekki niður á Suður­strandar­veg eða yfir ein­hverjar lagnir.

Kannski heldur þetta það lengi á­fram að við fáum ein­hvern Skjald­breið hér og þá hefur þetta náttúru­lega ekkert að segja það sem við erum að gera,“ sagði Hörn.

Hún telur reynsluna sem fæst af verk­efninu aðal­at­riðið: „Það sem skiptir kannski megin­máli er að ef Reykja­nesið er vaknað og þetta getur komið upp ein­hvern tíma annars staðar seinna, þar sem eru mikil­vægir inn­viðir, að við lærum á þetta allt saman þannig við erum þá að reyna núna og fáum ýmis­legt svona í far­teskið fyrir næstu árin og ára­tugina kannski.“

Hér má sjá viðtalið við Hörn úr kvöldfréttum Stöðvar 2:

Hraunið nánast komið yfir garðinn

Ríkis­stjórnin sam­þykkti fyrir síðustu helgi að koma upp tveimur fjögurra metra háum varnar­görðum á gos­stöðvunum. Hún sam­þykkti síðan á þriðju­dag að þeir yrðu hækkaðir upp í átta metra. Mark­miðið er að hindra, eða að minnsta kosti að tefja, hraunið í að steypast niður í Nátt­haga og þar með í átt að Suður­strandar­vegi.

Hraunið er farið að bunkast upp við varnargarðana. Myndin sýnir eystri varnargarðinn.Egill Aðalsteinsson

Vestari varnar­garðurinn er orðinn um átta metra hár en sá eystri ekki nema um fjórir. Dá­lítið af neyðar­ruðningi var komið fyrir á honum í dag. Þar munar nú mjög litlu að hraunið komist yfir lægstu hluta garðsins.

„Þetta er neyðar­ruðningur þannig hann er svo­lítið hól­óttur að ofan þannig þar sem hann er lægstur eru þetta kannski 20 til 30 sentí­metrar,“ segir Hörn.

Þá er hæg­fljótandi hraun­tunga að síga í átt að vestari stíflunni og vinnur Verkís nú þeim megin við að koma neyðar­ruðningi fyrir hana.

Vestri garðurinn er mun styttri.Egill Aðalsteinsson

Tengdar fréttir

Ýttu upp neyðargörðum fram á nótt til að verjast hraunrennsli

Stíflugerðarmenn á gosstöðvunum í Fagradalsfjalli stóðu í æsispennandi kapphlaupi í gærkvöldi og fram á nótt við að ryðja upp neyðargörðum þegar hraunrennsli stefndi á eystri varnargarðinn ofan Nátthaga. Búið er að bæta við annarri jarðýtu til að hraða styrkingu varnargarðanna.

Heilmikil hrauná við eystri varnargarðinn

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands vekur athygli á því að í hádeginu hafi opnast heilmikil hrauná rétt aftan við eystri varnargarðinn á Fagradalsfjalli. Þykir ljóst að farvegir neðanjarðar séu að veita bráð að jaðri hraunbreiðunnar úr tjörninni ofar í hrauninu.

Hraunið byrjað að banka upp á báða varnargarðana

Almannavarnir vilja að strax verði farið í að hækka varnargarða á gosstöðvunum upp í átta metra hæð. Sérfræðingur telur að garðarnir muni að minnsta kosti tefja fyrir því að hraunið steypist niður í Nátthaga og þar með í átt að Suðurstrandarvegi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.