Innlent

Stofna skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Ís sem kelfir úr Skaftafellsjökli í lón sem hefur myndast fyrir framan jökulsporðinn. Íslenskir jöklar hopa nú hratt vegna hlýnunar loftslags.
Ís sem kelfir úr Skaftafellsjökli í lón sem hefur myndast fyrir framan jökulsporðinn. Íslenskir jöklar hopa nú hratt vegna hlýnunar loftslags. Vísir/Vilhelm

Veðurstofu Íslands hefur verið falið að veita nýjum samstarfsvettvangi fagstofnana um loftsagsbreytingar og aðlögun að þeim forystu. Skrifstofa loftslagsþjónustu og aðlögunar á að styðja stefnu stjórnvalda um aðlögun að loftslagsbreytingum og miðla gögnum, rannsóknum og þekkingu til að takast á við loftslagsbreytingar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, kynnti stofnun nýju skrifstofunnar á ársfundi Veðurstofu Íslands í morgun. Hún á að vera sameiginlegur vettvangur háskólasamfélagsins, Rannís, fagstofnana og hagaðila. Sagði ráðherrann að Veðurstofan fengi aukið fjárframlag úr ríkissjóði til að standa straum að verkefninu.

Framlag starfsmanna Veðurstofunnar, Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Skipulagsstofnunar sem sinna vöktun og rannsóknum vegna áhrifa loftslagsbreytinga á að mynda grunninn að þeim rannsóknum, mælingum, fróðleik og öðrum gögnum sem skrifstofan mun miðla og nýta til að sinna hlutverki sínu, að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Veðurstofa Íslands er tengiliður (National Focal Point) við Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) í umboði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þær niðurstöður sem birtar hafa verið í skýrslum IPCC eru vísindalegar forsendur fyrir þeim alþjóðlegu aðgerðum sem farið hefur verið í til að uppfylla Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og bókanir hans (Kýótó og Parísarsamninginn). Einnig leggja þær vísindalegan grunn að áhættumati gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga og aðlögun að þeim. Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar er enn fremur ætlað að vera tengiliður við alþjóðastofnanir á borð við Alþjóðaveðurfræðistofnunina (WMO) og ESB Kópernikusaráætlunina um vöktun jarðar.

Skýrslur IPCC leggja jafnframt ákveðinn grunn að skýrslum Vísindanefndar en sú nýjasta kom út á vormánuðum 2018: Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi. Í þeirri skýrslu var farið yfir umfang breytinga og ummerki þeirra hér á landi á liðnum áratugum og auk þess fjallað um líklegar breytingar og afleiðingar þeirra á næstu áratugum. Nýrri skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar er ætlað að styrkja starf Vísindanefndar og sinna miðlun og útgáfu á skýrslum nefndarinnar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×