Innlent

Virknin slokknar og rýkur svo upp með stórum kviku­strókum

Sylvía Hall skrifar
Einhvers konar þrýstingsbreyting veldur því að virknin í gosinu slokknar í smá stund áður en hún rýkur upp með stærðarinnar kvikustrókum. Náttúruvárhópur Suðurlands telur strókana sennilega vera þá stærstu í eldgosinu hingað til.
Einhvers konar þrýstingsbreyting veldur því að virknin í gosinu slokknar í smá stund áður en hún rýkur upp með stærðarinnar kvikustrókum. Náttúruvárhópur Suðurlands telur strókana sennilega vera þá stærstu í eldgosinu hingað til. Skjáskot/Sigfús Steindórsson

Breyting varð á gosinu í virka gígnum í Geldingadölum skömmu eftir miðnætti. Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að um einhvers konar þrýstingsbreytingu sé að ræða sem lýsi sér í því að virknin slokknar niður í tvær mínútur í senn og rýkur síðan upp.

„Það kemur í svona hviðum má segja, það slokknar niður virknin í tvær mínútur í senn og rýkur upp aftur með þessum stóru kvikustrókum sem sjást alla leið frá Reykjavík og við höfum séð hér á Veðurstofunni. Svo er virknin svona nokkuð jöfn í átta mínútur þangað til að það slokknar aftur niður í þessu og undirbýr sig undir það næsta,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir í samtali við fréttastofu.

Myndband, sem tekið er í Hafnarfirði af Sigfúsi Steindórssyni, sýnir greinilega hversu háir kvikustrókarnir verða.

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands birti færslu í nótt með myndbandi af strókunum. Er talið að þessi öfluga strókavirkni hafi sennilega skilað stærstu strókum sem sést hafa í eldgosinu og áætlað að þeir hafi farið 200 til 300 metra upp frá hrauntjörninni.

Hrauntungurnar í Meradölum náðu saman í gær og lokuðu þar með vegi björgunarsveitarmenn og aðrir hafa notað. Að sögn Salóme er líklegt að aðrar leiðir séu á svæðinu, en hún segir hættu geta myndast ef hraunslettur fara að falla á fólk sem er nálægt.

Stórir kvikustrókar hafa sést langar leiðir.Vísir/Vilhelm

„Fólk verður að fara með gát en björgunarsveitaraðilar og lögreglan og öll viðbragðsstjórn á svæðinu er mjög meðvituð um þetta og við erum í sambandi við þau. Það er í þeirra höndum að taka ákvörðun um hvað er hættusvæði og hvað ekki,“ segir Salóme en sérfræðingar fylgjast vel með stöðunni.

„Við erum að bíða og sjá hvað sérfræðingar segja og viljum taka ákvarðanir með þeim, hvað er í rauninni að valda og lesa í þetta. Það er einhvers konar þrýstingsbreyting sem verður, hvort sem það er í uppsprettunni eða gosopinu sjálfu. Það dettur niður þrýstingurinn sem gýs síðan aftur upp með þessum kvikustrókum.“


Tengdar fréttir

Dróninn bráðnaði í beinni út­sendingu

Drónaútsendingunni á gossvæðinu við Fagradalsfjalli lauk um klukkan 6:30 í morgun eftir um tólf tíma útsendingu. Útsendingunni lauk með því að einum drónanum var flogið lágt yfir virkasta gíginn þannig að áhorfendur gátu fylgst með kvikunni í miklu návígi, og allt í beinni útsendingu. Dróninn bráðnaði svo að lokum og hrapaði ofan í sjálfan gíginn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×