Innlent

„Smánarblettur sem á ekki að viðgangast“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Vísir/Baldur

Misskipting gæða og auðlinda er einn helsti vandi sem steðjar nú að íslensku samfélagi, að mati forseta ASÍ. Verkalýðsdagurinn er haldinn hátíðlegur í dag með óheðfbundnu sniði - annað árið í röð.

Yfirskrift verkalýðsdagsins hjá Alþýðusambandi Íslands að þessu sinni er „Það er nóg til“. Drífa Snædal forseti ASÍ segir að þetta vísi til þess að enn hafi ekki nást samkomulag um hvernig skipta eigi gæðum samfélagsins.

„Það er alltaf einhver undirliggjandi krafa um sátt en til þess að svo megi verða þarf líka að ná sáttum um hvernig eigi að skipta þessum gæðum á milli okkar. Það er ekki sátt í samfélaginu um hvernig launasetning eigi að vera, við búum enn þá við vanmat á kvennastörfum til dæmis og við búum enn þá við það að sumir hafa alls ekki nóg. Og veikindi og í sumum tilvikum aldur er bara ávísun á fátækt og það er smánarblettur sem á ekki að viðgangast í okkar góða samfélagi,“ segir Drífa í samtali við fréttastofu.

Ávarp Drífu í tilefni verkalýðsdagsins má horfa á í spilaranum hér fyrir neðan.

Hún segir að auðlindir landsins eigi ekki að ganga kaupum og sölum - eða seldar orkufrekum stórfyrirtækjum.

„Þetta vísar líka í það að við erum vön því í okkar lífi að skipta á milli okkar gæðunum inni á heimilinum og það er ekki þannig að ef við þurfum að skera við nögl að einhver fær þá meira en aðrir minna, þannig að þetta vísar í jöfnuðinn líka.“

Vegna kórónuveirufaraldursins verður fólki ekki stefnt í fjöldafundi eða kröfugöngur í dag, annað árið í röð, og baráttan því að mestu leyti háð á netinu. 

Alþýðufylkingin boðar hins vegar til útifundar á Ingólfstorgi í dag klukkan tvö innan þeirra marka sem samkomutakmarkanir leyfa, að því er segir í tilkynningu. Fundinum verði einnig streymt á Facebook-síðu fylkingarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.