Skúli var kjörinn með 49 atkvæðum, samkvæmt tilkynningu á vef Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson baðst lausnar sem umboðsmaður Alþingis í febrúar síðastliðnum, en hann hefur gegnt embættinu frá 1998 eða í 23 ár.
Auk Skúla gáfu þau Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari, Ástráður Haraldsson, héraðsdómari og Kjartan Bjarni Björgvinssopn, héraðsdómari, einnig kost á sér til embættisins.
Áslaug dró sig þó úr kapphlaupinu í upphafi apríl.
Sjá einnig: Afar sértæk beiðni kom á óvart
Forsætisnefnd Alþingis gerir tillögu til þingsins um einstakling til að gegna embættinu og á fundi nefndarinnar í morgun var samþykkt einróma að það ætti að vera Skúli. Eins og áður segir veittu 49 þingmenn svo tilnefningu hans atkvæði sitt.
Sérstök ráðgjafanefnd var forsætisnefnd innan handar í ferlinu.
Eftirtaldir sérfræðingar skipuðu ráðgjafarnefndina: Helgi I. Jónsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri Deloitte, og Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Starfsmaður nefndarinnar er Heiðrún Pálsdóttir, ritari forseta Alþingis.