Birgir Óskarsson tók þessa ljósmynd í eftirlitsflugi fyrr í dag.Aðsend/Birgir Óskarsson
Nú þegar mánuður er liðinn frá því fyrst hóf að gjósa í Fagradalsfjalli virðist sem svo að hætt sé að gjósa í tveimur nyrstu gígunum á svæðinu. Birgir Óskarsson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Ljósmyndir sem Birgir tók í eftirlitsflugi í dag sýna þetta glöggt.
Frá þessum fréttum er einnig greint á Facebooksíðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands og er þar fjallað um nyrsta gíginn. Vefmyndavélar sýni að ekki svo mikið sem vottur af gufu komi úr gígnum. Þá hafi heldur ekki neinn bjarmi sést í næturmyrkrinu. Hópurinn segir að hrauntjörnin sé horfin úr gígskálinni.
Umræddur nyrsti gígur opnaðist á öðrum degi páska. Að sögn hópsins var hann mjög líflegur og reis nokkuð hratt fyrstu dagana. „Var hann á endanum orðinn töluvert hærri í landslaginu en önnur gosop.“
Í síðustu viku sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur að nyrsti gígurinn sýndi merki þess að verulega hefði dregið úr virkni. Hann spáði því að þetta væri liður í aðlögun kvikunnar að landslaginu og að við myndum sjá færslu til suður því nyrsti gígurinn stæði hæst í landslaginu.
Mánuður er í dag liðinn frá því að eldgosið í Fagradalsfjalli hófst. Gosið virðist haga sér á óvenjulegan máta þar sem hraunrennsli síðustu tíu daga hefur verið meira en fyrstu tíu daga gossins. Flest gos hegða sér á hinn veginn, að það dregur úr með tíma.
Nýtt gosop opnaðist á gossvæðinu við Fagradalsfjall á þriðja tímanum í dag. Opið er lítið og opnaðist á milli gíganna sem fyrir eru, á skilgreindu hættusvæði.
Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, segir að verulega hafi dregið úr virkni í nyrsta gígnum á Reykjanesskaga en að sama skapi hafi virkni aukist í þeim syðstu. Kvikufærsla til suðurs gæti þýtt að um sé að ræða aðlögun að hæðarmismun í landinu því syðri gígarnir standi lægra.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.