Fótbolti

Vongóður um sjálfvirka rangstöðudóma á næsta HM

Sindri Sverrisson skrifar
Rangstaða? Það getur tekið langan tíma að fá niðurstöðu um rangstöðudóma eftir að myndbandsdómgæsla var leyfð.
Rangstaða? Það getur tekið langan tíma að fá niðurstöðu um rangstöðudóma eftir að myndbandsdómgæsla var leyfð. Getty/Nick Potts

Arsene Wenger, þróunarstjóri hjá alþjóða knattspyrnusambandinu, reiknar með því að tæknin verði orðin svo góð fyrir HM á næsta ári að aðstoðardómarar geti á svipstundu fengið upplýsingar um það hvort að leikmaður sé rangstæður.

„Ég tel að sjálfvirkt rangstöðumat verði tilbúið 2022,“ segir Wenger í viðtali við The Times. Hann segir að með sjálfvirkni eigi hann við að aðstoðardómarar fái strax skilaboð um hvort leikmaður sé í rangstöðu. Það er svo hlutverk aðstoðardómara að meta hvort sá leikmaður hafi áhrif á leikinn.

IFAB, sem semur reglur fótboltans, greindi frá því í síðasta mánuði að áfram væri verið að skoða rangstöðuregluna, og þróa tækni til að stytta biðtímann þegar mjótt er á munum hvað varðar rangstöðu.

Wenger kveðst þrýsta á að hægt verði að nota sjálfvirkt rangstöðumat sem allra fyrst enda vilji enginn þurfa að bíða með að fagna marki, eða fagna marki og sjá svo löngu síðar að það fái ekki að standa.

„Að meðaltali er biðtíminn um 70 sekúndur. Stundum 1 mínúta og 20 sekúndur… Þetta er svo mikilvægt vegna þess að við sjáum oft fagnaðarlátum slitið eftir slíka bið út af jafnvel mjög naumri rangstöðu,“ sagði Wenger.

Hollenska knattspyrnugoðsögnin Marco van Basten kallaði eftir því í síðasta mánuði að rangstöðureglan yrði einfaldlega felld niður. Hann telur fótboltann geta orðið betri án hennar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.