Innlent

Kári segir dæmi þess að ferða­menn hundsi sótt­kví og fari beint í Geldinga­dali

Eiður Þór Árnason og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Geldingadalir hafa á skömmum tíma orðið langvinsælasti ferðamannastaður landsins.
Geldingadalir hafa á skömmum tíma orðið langvinsælasti ferðamannastaður landsins. Samsett

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist hafa heyrt dæmi þess að erlendir ferðamenn sem komi til að skoða eldgosið í Geldingadölum brjóti sóttkví með markvissum hætti.

Sóttvarnalæknir greindi frá því í dag að einstaklingur sem greindist utan sóttkvíar tengist hópferðum sem farnar hafi verið að gosstöðvunum og lýsti yfir áhyggjum af smithættu á svæðinu.

„Mér skilst að það sé svolítið vandamál við gosstöðvarnar að þar séu ferðamenn sem eiga að vera í sóttkví og við verðum að finna einhverja leið til að taka á því. Það er að segja að fólk sé að koma hingað með bókað far aftur heim þremur dögum eftir að það kemur og á samt að fara í fimm daga sóttkví. Það hljómar heldur illa,“ segir Kári í samtali við fréttastofu.

Ekki hægt að fylgjast með öllum

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði við Fréttablaðið í gær að embættið fylgdist ekki sérstaklega með því hvort fólk sem sæki gosstöðvarnar sé að brjóta sóttkví.

Ekki væri hægt að ætlast til þess að lögreglumenn sem standi vaktina á Suðurstrandarvegi, þaðan sem flestir hefja gönguna að gosstöðvunum, geti spurt alla þá sem væru á ferðinni hvort þeir eigi að vera í sóttkví. Þá sagðist hann ekki vita til þess að vandamál þessu tengt hafi komið upp við gosstöðvarnar.

Mikill fjöldi fólks hefur reynt að komast að gosstöðvunum og hefur ásóknin valdið umferðartöfum á Suðurstrandarvegi.Vísir/Vilhelm

Bað fólk um að fresta ferðum sínum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir biðlaði til fólks að fara mjög varlega í hópferðum að gosstöðvunum og helst að bíða með að gera sér leið þangað á næstunni. Þúsundir manna hafa farið á svæðið síðustu daga.

„Þegar maður sér myndir frá gosstöðvunum og af þeim gríðarlega fjölda sem er þar að safnast saman af Íslendingum og útlendingum og fólki sem er að ganga í þéttum hópum, þá er ástæða til að hafa áhyggjur af því að það geti komið upp einhvers konar smit og smithætta við þær aðstæður,“ sagði sóttvarnalæknir fyrr í dag.

Þórólfur vildi ekki veita nánari upplýsingar um það með hvaða hætti einstaklingurinn tengist ferðum í Geldingadali en eitthvað hefur verið um skipulagðar ferðir á svæðið undanfarna daga.

Ákveðið hefur verið að veita allt að tíu milljónum króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta aðgengi fyrir þá sem vilja skoða jarðeldana á Reykjanesi.Vísir/Vilhelm

Minni á upphaf þriðju bylgjunnar

Kári segir að stjórnvöld hafi almennt gripið myndarlega í taumanna til að bregðast við hraðri útbreiðslu kórónuveirunnar undanfarna daga og vonar að það takist að kveða þetta niður í kútinn áður en þetta verður of stórt.

„Ég vona að við náum utan um þetta en ég er svolítið smeykur því mér finnst þetta líta töluvert út eins og byrjunin á þriðju bylgjunni. Í þetta skiptið gripum við þó í taumanna miklu miklu fyrr og ég vona að það skili sér.“


Tengdar fréttir

Bílastæðavandi við gönguleiðina: „Þetta er ekki Kringlan“

Björgunarsveitarmaður í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Suðurnesjum mælir eindregið með því að fólk fari stikuðu leiðina að gosstöðvunum. Þannig sé best að ná til fólks ef eitthvað kemur upp á. Gríðarlegur bílastæðavandi blasir við í dag en hann biðlar til fólks að vanda sig við að leggja því viðbragðsaðilar verði alltaf að hafa greiða leið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×