Lífið

„Viðskipti mín núna eru mest í gegnum peninga konunnar“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jón Ásgeir fer um víðan völl í viðtalinu við Sölva og segist hafa tapað nánast öllu sem hann átti í hruninu eða um 99%.
Jón Ásgeir fer um víðan völl í viðtalinu við Sölva og segist hafa tapað nánast öllu sem hann átti í hruninu eða um 99%.

Jón Ásgeir Jóhannesson, sem er án efa einn þekktasti viðskiptamaður Íslandssögunnar og taldi hann rétt að segja sína hlið mála í bókarformi núna, meira en áratug eftir hrunið. Jón er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar.

„Það var farið af stað með bókina, en ég hætti við í huganum nokkuð oft. Það er erfitt að rifja þetta allt upp aftur og ég hugsaði oft hvort það væri ekki bara best að láta þetta vera. Það var mest í byrjuninni á bókaferlinu sem ég var nálægt því að hætta við,” segir Jón Ásgeir, sem viðurkennir að hann sé stundum bitur.

„Auðvitað er maður bitur. Það fóru dýrmæt ár af lífi mínu til spillis og mikill tími. En svo hugsar maður hvað er hægt að gera til að breyta því sem er búið og gert. En það er fáránlegt að það megi halda fólki og fyrirtækjum í málaferlum í áratugi. Það er alltaf sagt að þessi mál séu svo flókin, en með þeirri tækni sem til er í dag eru allar bankafærslur í heiminum meira og minna rafrænar og það er tiltölulega auðvelt að rekja þær og finna veilur í bókhaldi. En ef þú ert í veiðiferð og ætlar bara að finna eitthvað þá getur þú dúllað þér við það í mörg ár. Í okkar tilfelli var bara veiðiferð í gangi. Það er alveg jafn mikil refsing að sitja undir því að vera í rannsókn af þessu tagi eins og að taka út refsingu. Það byrjuðu og enduðu nánast allar fréttir um okkar mál á því að við ættum yfir höfði okkur sex ára fangelsi. Það heftir þig rosalega mikið að hafa það hangandi yfir þér í allan þennan tíma.“

Í þættinum segir Jón meðal annars frá augnablikinu þegar Davíð Oddsson sakaði hann í beinni útsendingu um að hafa reynt að múta sér.

Heldur að það hafi verið vín við hönd

„Ég gleymi aldrei þessu „momenti” þegar ég heyrði í útvarpinu að forsætisráðherra landsins sakar mig um að hafa mútað sér með 300 milljónum. Ég var á Sóleyjargötunni með konunni minni og við horfðum á hvort annað og ég hugsaði bara: „Hvað er að gerast hérna?” þetta var svo ótrúleg saga en svona fór þetta í loftið og það er ekki á hverjum degi sem forsætisráðherra lands segir í fjölmiðlum að reynt hafi verið að múta sér. Ég held að það hafi verið vín um hönd á þessum fundi Davíðs og Hreins og aðstoðarmaðurinn átti að hafa verið á bak við sófa. Það komu alls konar stórkostlegar lýsingar þegar það fór að flettast ofan af þessu,” segir Jón, sem staðfestir jafnframt í viðtalinu að hann hafi síðar hitt Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar Erfðagreiningar, sem hafi sagt við sig „þú ert á svarta listanum hjá Davíð, en ég þeim hvíta, en við komumst hvorugir burt”

„Já já, það er bara þannig, Kári orðaði þetta skemmtilega við mig og sagði að ég yrði alltaf á svarta listanum hjá Davíð og kæmist aldrei burt af honum.”

Margir vilja meina að upphafið að einhverjum mestu átökum Íslandssögunnar megi rekja til þess þegar Jón Ásgeir keypti Fréttablaðið árið 2002. Hann harðneitar að það hafi verið gert í pólitískum tilgangi, heldur hafi það fyrst og fremst verið gert í þeim tilgangi að eiga fleiri möguleika á auglýsingamarkaði fyrir fyrirtæki sín.

„Við vorum með mörg fyrirtæki á Íslandi og þurftum að auglýsa og umhverfið á þessum tíma var gjörólíkt því sem er í dag og það voru ekki valkostir á hverju horni. Það þurfti að panta auglýsingar í Morgunblaðinu í janúar sem þú ætlaðir að nota í desember. Nánast 12 mánuði fram í tímann og verðin voru líka hækkuð í desember og þegar mest þörf var á að auglýsa og við vorum mjög ósáttir við þetta. Það var stærsta ástæðan fyrir því að við ákváðum að fjárfesta í Fréttablaðinu. Þá gætum við komið fyrirtækjunum okkar á framfæri með ódýrari hætti. Það hljómar furðulega að tala um þetta núna, en það var ekkert Facebook eða Google og þú gast ekki rekið matvöruverslun á Íslandi ef þú auglýstir ekki í Mogganum.“

Ekki verða ástfanginn af fjárfestingunni

Í þættinum viðurkennir Jón Ásgeir að það hafi verið mistök að stækka of mikið á árunum fyrir hrun og menn hafi á ákveðinn hátt misst sjónar af upprunanum.

„Menn voru of þandir og menn voru á of mörgum vígstöðvum. Það er ljóst. Ég held að það megi alveg segja að menn voru að fara of víða og í of ólíkar fjárfestingar. Það verður erfitt að fylgjast með öllu þegar umsvifin eru orðin svona mikil, það er klárt eftir á að hyggja að ég var of nískur á að selja hluti. Það er mikið til í því þegar sagt er: „Never fall in love with your investments“ og það er mikið hægt að læra af því. Það er ágæt regla sem góður vinur minn sagði mér einu sinni að ef maður væri kominn með sjö fyrirtæki þyrfti maður að fækka í það minnsta einu. Ég held að það sé ágæt regla og að gefa sér tíma í því sem maður er í og klára það. Það er ein af þeim lexíum sem ég hef lært.”

Hann segir hins vegar að þegar komið er á stóra sviðið í viðskiptum virki það einfaldlega þannig að það sé farið alveg að línunni sem þeir sem stýra regluverkinu setja.

„Það eru sömu lögmál í viðskiptum og í handbolta og fótbolta. Ef þú ætlar að spila metra frá útlínunni á vellinum muntu ekki ná sama árangri eins og þeir sem spila alla leið að línunni. Leikurinn er þannig að þú nýtir þér allan völlinn. Það er sama í viðskiptum og í fótbolta.”

Jón Ásgeir var þegar mest lét með 84 fyrirtæki og meira en 50 þúsund starfsmenn. Eitt umtalaðasta partýið á árunum fyrir hrun var Baugsdagurinn í Monakó árið 2007, þar sem Tina Turner söng meðal annarra.

„Það var annað andrúm á þessum tíma og kreðsan sem við vorum í var í þessu. Þetta voru ekki bara íslenskir kaupsýslumenn og þetta var á ákveðinn hátt andrúmsloftið á þessum árum. Við vorum að starfa erlendis og í þessu umhverfi voru partí með heimsfrægum tónlistarmönnum nánast hverja helgi og vakti enga sérstaka athygli þar. Menn áttuðu sig kannski ekki á því hvað þetta myndi vekja mikla athygli á Íslandi. Þetta hefur ekkert horfið og þessar samkomur eru enn í gangi erlendis.”

Jón Ásgeir segir í þættinum frá því þegar hann áttaði sig fyrir alvöru á því að mikið óveður væri í vændum í aðdraganda hrunsins 2008.

„Ég man eftir augnablikinu þegar ég vissi að það væri óveður í vændum. Ég var í gulum leigubíl í New York þegar Lárus Welding hringir í mig og segir að það sé vandamál með danskan banka sem eigi skuldabréf á bankann. Ég man eftir því að ég var ekki rólegur í fluginu á leiðinni heim. Það komu síðan furðulegustu vikur sem maður hefur upplifað þarna strax á eftir, það var lítið sofið þessar vikur sem fóru í hönd,“ segir Jón sem á þarna við Danske Bank.

Mættur í búðina sex ára

Maðurinn sem var árið 2007 kominn með meira en 50 þúsund starfsmenn byrjaði mjög snemma í viðskiptum og segir frá því í þættinum.

„Ég byrjaði að vinna hjá pabba þegar ég var 6 ára. Þá var ég að fylla á kók-kæli á SS búðinni í Austurveri. Bakterían kom fljótt í mann og eftir þetta kom blaðaútburður og ég seldi líka blöð niðri í bæ. Svo þurfti maður að rukka áskrifendurna einu sinni í mánuði og þar lærði maður fyrstu skrefin í bókhaldi. Ég held að margt viðskiptafólk á Íslandi af þessari kynslóð hafi lært mikið af því að selja og bera út dagblöð í æsku. Svo fór ég í að selja poppkorn úr poppkornsvagni á Seltjarnarnesinu. 12-14 ára var ég kominn með pylsuvagn líka og þá var ég kominn með stráka í vinnu fyrir mig, þannig að ég var kominn með mannaforráð nokkuð ungur,” segir Jón Ásgeir, sem rifjar líka í þættinum upp fyrstu árin í Bónus.

„Við byrjum með eina búð og það var engin bankalán að hafa. Við byrjuðum með milljón í hlutafé, sem hefur dugað Bónus síðan þá. Það hlutafé hefur aldrei verið aukið. Þegar við vorum búnir að borga alla reikningana í byrjun voru 50 þúsund krónur eftir á heftinu. Það þurfti að hugsa út í hvert einasta smáatriði og gera hlutina öðruvísi og fækka handtökum. Í stað þess að setja vörurnar inn á lager voru þær settar beint í hilluna og það var labbað inn á kælana eins og fólk þekkir í dag, en það þótti alveg fáránleg hugmynd. Það var mikið kvartað undan þessu fyrstu árin og fólk var að heimta að við myndum skaffa úlpur á meðan það væri að versla.”

Jón Ásgeir hefur stærstan hlutann af þessari öld verið undir smásjá dómstóla. Fyrst í Baugsmálinu og síðar í málunum eftir hrun. Hann segir að allir verði litlir í baráttu við ríki, óháð fjárhagsstöðu.

„Það er alveg sama hvað þú átt mikið af peningum, á móti ríki ertu alltaf lítill. Lögregla, saksóknarar, aðgangur að símakerfum, tölvukerfum og fleiru, einstaklingurinn getur ekki komist í sömu stöðu. Þess vegna var fáránlegt þegar ríkisvaldið var farið að kvarta undan því að við værum að ráða okkur góða lögmenn,” segir Jón Ásgeir, sem játar því að hafa verið orðinn „paranoid“ á löngum köflum.

Tapaði nánast öllum fjármunum sínum

„Að sjálfsögðu, þú ert alltaf var um þig. Ég hef stundum útskýrt það þannig að alveg frá því að þessi dómsmál byrja hafi 25 prósent af heilastarfseminni minni farið í að hugsa um þau og hafa áhyggjur af þeim. Mér líður eins og meirihlutann af þessari öld hafi það verið þannig og stundum hefur talan farið langt yfir 25 prósent. Þú ert að glíma við ójafnan leik. Fyrst eftir að það var ráðist inn í Baug hélt ég að ég gæti útskýrt mál mitt, en síðan fór ég að sjá að það var verið að ástunda leikjafræði sem ég bjóst ekki við. Það var bara stanslaust grafið í næsta og næsta máli og kerfið kunni ekki að stoppa.”

Báðir foreldrar Jóns Ásgeirs féllu frá á árunum eftir hrun og Jón er ekki í nokkrum vafa um að álagið í kringum málaferlin hafi haft þar áhrif.

„Það er klárt að álagið í kringum dómsmálin eftir hrun höfðu áhrif á andlát foreldra minna. Fyrir pabba að missa Bónus var mjög erfitt og tók á. Þetta voru svo skrýtnir tímar að maður náði ekki að vinna úr þessu. Þessi ár var maður að troða marvaðann frá degi til dags. Í dómsmálum, einkamálum og fleiru og þetta voru mjög skrýtin ár,“ segir Jón, sem segir að helstu umsvif hans nú séu byggð upp á fjármagni frá eiginkonu hans, Ingibjörgu Pálmadóttur.

„Viðskipti mín núna eru mest í gegnum peninga konunnar minnar. Ég tapaði 99 prósent af mínu fé í hruninu. Það kemur með árunum og þroska að hugsa til mögru áranna, sá partur gleymist þegar maður er „All in“ eins og ég var.”

Hann segir að íslenskt viðskiptalíf sé varanlega breytt eftir hrun, en hins vegar sé síst minna af ríkum Íslendingum í dag, það beri bara minna á þeim.

„Á árunum fyrir hrun þótti það svo mikil frétt ef einhver var ríkur. Það hefur breyst. Ég held að Íslendingar eigi miklu fleiri milljarðamæringa í dollurum núna en fyrir hrun, þeir eru bara ekkert að flagga því. Þessir aðilar eru bæði á Íslandi og erlendis. Fólki er meira sama núna, þetta er ekki „headline news“ lengur.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×