Sport

Karlrembunum fækkar enn í yfirmannahóp Ólympíuleikanna í Tókýó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hiroshi Sasaki og grínistinn Naomi Watanabe. Hiroshi ætlaði að vera svo sniðugur með að gera lítið úr henni vegna yfirstærðar hennar.
Hiroshi Sasaki og grínistinn Naomi Watanabe. Hiroshi ætlaði að vera svo sniðugur með að gera lítið úr henni vegna yfirstærðar hennar. Samsett/Getty/AP

Hiroshi Sasaki, yfirmaður sköpunarteymis Ólympíuleikanna í Tókýó, hefur sagt af sér aðeins nokkrum mánuðum fyrir leikana.

Sasaki er annar yfirmaður í yfirmannahóp þessara Ólympíuleika sem þarf að segja af sér vegna mjög óheppilegra ummæla um konur.

Hiroshi Sasaki var yfirmaður teymisins sem sér um að setja upp og skipuleggja bæði Setningar- og lokahátíð Ólympíuleikanna sem eiga að vera frá 23. júlí til 8. ágúst í sumar.

Sasaki kom sér í sín vandræði með því að gera lítið úr uppistandaranum vinsæla Naomi Watanabe í hópspjalli á netinu.

Sasaki sagði þar að Naomi Watanabe gæti tekið að sér hlutverk „Olympig“ eða Ólympíugríssins. Hann lagði það til að hún myndi mæta með grísaeyru á Setningarhátíðina. Naomi er í yfirstærð.

Sasaki hefur beðið Naomi afsökunar á ummælum sínum sem og viðurkennt að þetta hafi verið mikil móðgun.

Naomi Watanabe sjálf hefur ekki tjáð sig um málið opinberlega.

Hin 33 ára gamla Watanabe er ein frægasti grínisti Japana en hún er þekkt fyrir að herma eftir frægu fólki sem og að berjast fyrir jákvæðri umræðu um mismunandi líkamsgerðir fólks.

Eins og áður sagði er Hiroshi Sasaki ekki fyrsta karlremban í skipulagsnefnd Ólympíuleikanna sem þarf að segja af sér.

Áður hafði forseti leikanna, Yoshiro Mori, sagt af sér eftir að hafa látið það út sér að konur töluðu of mikið og þess vegna tækju fundir með konur alltof langan tíma.

Seiko Hashimoto tók við af honum en hún hefur lofað því að setja kynjajafnrétti í forgang á leikunum og bætti meðal annars við tólf konum í framkvæmdastjórn skipulagsnefndar leikanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×