Innlent

Dómsmálaráðherra og lögreglustjóra boðið að aflétta trúnaði

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og þingmaður Pírata. vísir/Vilhelm

Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þingmaður Pírata, hefur boðið dómsmálaráðherra og lögreglustjóra að aflétta trúnaði um það sem kom fram í máli þeirra á fundum nefndarinnar um símtöl ráðherra til lögreglustjóra á aðfangadag.

Deilt hefur verið um hvort Jón Þór og Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, hafi brotið trúnað með ummælum sínum um efni fundanna. 

Þeir hafa hafnað því og vísað til þess að þeir hafi hvorki vitnað til orða gesta né nefndarmanna, líkt og óheimilt er samkvæmt þingskaparlögum. Morgunblaðið hefur eftir heimildarmönnum að fjallað verði um meint trúnaðarbrot á fundi forsætisnefndar í dag. Í áréttingu sem Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sendi formönnum og nefndarmönnum í fastanefndum Alþingis á föstudag segir að ákvæði þingskaparlaga sé skýrt og fortakslaust. Það sé ekki hlutverk nefndarmanna að endursegja eða túlka það sem nefndarmenn eða gestir segja á lokuðum fundum.

Nefndarmönnum sé hins vegar frjálst að upplýsa um eigin orð og afstöðu sína. Í bréfinu gerir Steingrímur ekki athugasemd við ummæli Jóns Þórs og Andrésar Inga.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.vísir/Vilhelm

Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun voru ekki gerðar athugasemdir við að Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, og Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, yrði boðið að aflétta trúnaði um efni fundanna.

Aðspurður hvers vegna farið sé fram á þetta segir Jón Þór að trúnaður geri nefndarmönnum erfitt fyrir að upplýsa almenning um málið og að fordæmi séu fyrir því að gestir heimili að vitnað sé til orða þeirra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.