Erlent

Fyrrverandi forseti Frakklands dæmdur fyrir spillingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Nikolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands.
Nikolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands. EPA/CHRISTOPHE PETIT TESSON

Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, hefur verið dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar vegna spillingar. Hann var meðal annars dæmdur fyrir að reyna að múta dómara í tengslum við rannsókn hvort hann hafi tekið við ólöglegri peningasendingu frá Liliane Bettencourt fyrir forsetaframboð hans árið 2007.

Tvö ár af þremur eru skilorðsbundin. Samkvæmt frétt France24 er ólíklegt að Sarkozy muni sitja í fangelsi vegna dómsins. Það gerist sjaldan í Frakklandi nema fangar séu dæmdir til minnst tveggja ára fangelsisvistar.

Forsetinn fyrrverandi á rétt á því að biðja um að afplána dóm sinn í stofufangelsi.

Auk Sarkozy fengu lögmaðurinn Thierry Herzog og dómarinn Gilbert Azibert sama dóm. Sarkozy og Herzog voru fundnir sekir um að að múta Azibert, sem sendi þeim upplýsingar um rannsókn á greiðslum sem framboðs Sarkozy fékk frá hinni auðugu Liliane Bettencourt, erfingja franska L'Oréal veldisins.

Málið byggði á upptökum af samtölum Sarkozy og Herzog. Á einni upptöku sagðist Sarkozy ætla að útvega Azibert starf í Mónakó, sem hann gerði að vísu aldrei. Frönsk lög gera samt ekki greinarmun á tilraun til mútugreiðslna og mútugreiðslum.

Sarkozy, sem var forseti frá 2007 til 2012, hefur þvertekið fyrir ásakanirnar og segist vera fórnarlamb nornaveiða saksóknara, samkvæmt frétt fréttaveitunnar Reuters. Hann hefur tíu daga til að áfrýja niðurstöðunni.

Sarkozy er annar fyrrverandi forseti Frakklands sem er dæmdur fyrir spillingu á undanförnum árum. Jacques Chirac var dæmdur árið 2011.

Rannsókn leiddi að endingu í ljós að Sarkozy hefði ekki brotið lög varðandi greiðslurnar frá Bettencourt. Hann er þó enn til rannsóknar vegna greiðslna sem hann er sakður um að hafa þegið frá Muamma Gaddafí, fyrrverandi einræðisherra Líbíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×