Innlent

Mikil­vægt að fólk sé vel upp­lýst ef rýma þurfi á höfuð­borgar­svæðinu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir margt geta orðið tilefni til þess að grípa þyrfti til rýminga á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir mikilvægt að fólk fái traustar upplýsingar og ani ekki af stað, ef til rýminga kæmi.

Þetta kom fram í máli Jóns Viðars í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hann segir fleira en bara snarpa jarðskjálfta eða eldgos geta orðið tilefni til rýminga.

„Það er náttúrulega bara bæði, og getur verið margt, margt annað. Það getur verið bruni, eiturefnaslys, það getur verið margt sem getur komið upp á sem krefst þess að þurfi að flytja fólk á milli svæða,“ segir Jón Viðar.

Hann segir þá líklegt að grípa þyrfti til þess ráðs að opna fjöldahjálparstöðvar, jafnvel fyrir höfuðborgarsvæðið allt.

„Fólk kannski leitar þangað. Ef það fær einhverja viðvörun getur það þess vegna leitað þangað snemma og ef það er að leita þangað eftir að atburðurinn er búinn að eiga sér stað þurfum við að treysta á það að fólk komi þangað eða fylgist mjög vel með fjölmiðlum, því þaðan koma upplýsingarnar. Það er ekki gott að fólk ani af stað, það þarf að vita hvert á að fara,“ segir Jón Viðar.

Hann segir þá að ekki sé gert ráð fyrir að allt höfuðborgarsvæðið yrði undir í einu.

„Þannig að við flytjum þá fólk á milli svæða, og þetta þarf að gera mjög skipulega.“


Tengdar fréttir

Skjálfti að stærð 3,5 fannst á höfuð­borgar­svæðinu og Reykja­nesi

Jarðskjálfti að stærðinni 3,5 fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi klukkan 14:35 í dag. Upptök skjálftans voru rétt fyrir norðan Fagradalsfjall og var hann sá stærsti sem mælst hefur síðan á fjórða tímanum í nótt. Þá er um að ræða fjórða skjálftann sem mælist að stærðinni 3 eða stærri frá því á miðnætti.

Segir bæjar­búum líða illa vegna jarð­skjálftanna

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir ekki góða stemningu í bænum í þeirri jarðskjálftahrinu sem nú gengur yfir Reykjanesið. Fólki líði illa og hafi í einhverjum tilfellum farið heim úr vinnu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×