Innlent

Þórólfur skilaði tveimur minnisblöðum til ráðherra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir breytingar á aðgerðum innanlands eiga að geta tekið gildi fljótlega. 
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir breytingar á aðgerðum innanlands eiga að geta tekið gildi fljótlega.  Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, skilaði í gær tveimur minnisblöðum til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, varðandi aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins.

Annars vegar er um að ræða minnisblað með tillögum að tilslökunum innanlands og hins vegar minnisblað sem snýr að skólastarfi en núverandi reglugerð um skólastarf í landinu rennur út þann 28. febrúar næstkomandi.

Í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun vildi Þórólfur ekki fara út í hvað felst í tillögum hans að tilslökunum en sagði þó að þær ættu að geta tekið gildi fljótlega. Það væri ráðherrans að ákveða gildistímann, sjálfur hefði hann ekki lagt til neina tímasetningu í þeim efnum.

Varðandi skólana þá lagði hann til að næsta reglugerð tæki gildi 1. mars.

„Ég held að innanlandsaðgerðirnar ættu að geta tekið gildi bara fljótlega. Það er náttúrulega ráðherrans að ákveða það. Ég er ekki með neina tímasetningu á því í sjálfu sér en varðandi skóla þá endar reglugerðin sem nú er í gildi 28. febrúar þannig að ég legg til að hún taki gildi í skólunum 1. mars,“ sagði Þórólfur.

Fram kom í máli Þórólfs að aðeins tveir hefðu greinst með veiruna innanlands í síðustu viku og voru þeir báðir í sóttkví. Þá tóku hertar reglur á landamærunum gildi á föstudag og eiga þær enn betur að koma í veg fyrir að smit berist hingað til lands.

Hann var meðal annars spurður út í grímuskylduna og þær raddir sem væru að verða háværari að vegna þess hve vel gengur þá mætti fara að draga úr grímuskyldunni.

„Það er ótrúlegt hvað menn eru tilfinningasamir gagnvart grímunni. Sumir eru alveg brjálaðir á móti henni og aðrir alveg brjálaðir með henni og allt þar á milli. Auðvitað kemur að því að við mælum með því að fólk sé ekkert endilega að vera með grímu en ég held að við eigum aðeins að bíða. Við erum að fjölga, við erum að opna, við erum að leyfa fleirum að vera saman og leyfa meiri starfsemi gegn því að fólk noti grímu. Þannig að ég held að við eigum ekki að rjúka til og henda öllu sem við erum búin að vera að gera sem hefur skilað okkur þessum árangri. Það væri ekki skynsamlegt,“ sagði Þórólfur.

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.