Innlent

Áætlun til að efla íslenskan landbúnað: Möguleikar bænda til að framleiða og selja beint frá býli auknir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Flestar aðgerðanna eiga að vera komnar í framkvæmd í apríl.
Flestar aðgerðanna eiga að vera komnar í framkvæmd í apríl. Vísir/Vilhelm

Í mars verður kynnt til sögunnar átak til að ýta undir möguleika bænda til að framleiða og selja afurðir beint frá býli. Markmiðið er að gefa bændum kost á að styrkja verðmætasköpun og afkomu fyrir næstu sláturtíð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um aðgerðaáætlun til eflingar íslensks landbúnaðar, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti í morgun.

Fyrrnefndu átaki er ætlað að stuðla að frekari fullvinnslu og vöruþróun, og varðveislu verkþekkingar og menningararfs við vinnslu matvæla. 

„Tilgangurinn er að auðvelda landbúnaðinum að nýta betur tækifærin sem í því geta falist. Fjármagn til að hrinda átakinu í framkvæmd er tryggt. Samhliða verður starfsumhverfi smáframleiðenda matvæla tekið til skoðunar með það að markmiði að draga fram möguleika til einföldunar regluverks sem gildir um starfsemina,“ segir í tilkynningunni.

Landbúnaðarstefna og mælaborð kynnt á vormánuðum

Aðgerðirnar sem ráðherra kynnti í morgun eru tólf og eiga tíu að vera komnar til framkvæmda 15. apríl næstkomandi. Umsjón með verkefninu hefur Sigurður Eyþórsson.

„Tilgangur aðgerðanna er að skapa öfluga viðspyrnu fyrir íslenskan landbúnað og auðvelda honum að nýta tækifæri framtíðarinnar,“ segir í tilkynningunni frá ráðuneytinu.

Dæmi um aðrar aðgerðir eru 970 milljóna króna framlag til að draga úr skaðlegum áhrifum Covid-19 á bændur. Þá mun tillaga að landbúnaðarstefnu fyrir Ísland liggja fyrir á vormánuðum og fyrsta útgáfa nýs mælaborðs fyrir landbúnaðinn birtast í mars næstkomandi.

Nánari upplýsingar um aðgerðaáætlunina má finna hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×