Sport

Simone Biles myndi ekki leyfa dóttur sinni að æfa hjá USA Gymnastics

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simone Biles með gullverðlaunin sem hún vann á heimsmeistaramótinu 2019.
Simone Biles með gullverðlaunin sem hún vann á heimsmeistaramótinu 2019. Getty/ Laurence Griffiths

Fimleikakonan Simone Biles er ein sigursælasta fimleikakona sögunnar en hún sparaði ekki stóru orðin þegar hún ræddi fimleikalandslið Bandaríkjanna í nýju viðtali.

Fimleikaheimurinn í Bandaríkjunum hefur nötrað síðan að upp komst um ömurlegt háttalag læknis fimleikalandsliðsins en Larry Nassar var á endanum dæmdur í þrjú hundruð ára fangelsi fyrir að misnota meira en 250 fimleikastelpur í skjóli starfs síns með læknir fimleikasambandsins.

Simone Biles kom fram á sínum tíma og sagði frá því að Larry Nassar hefði líka misnotað hana. Hún hefur frá byrjun gagnrýnt bandaríska fimleikasambandið, USA Gymnastics, fyrir að leyfa þessu að viðgangast í svo langan tíma og reyna síðan að breiða yfir það sem fimleikastelpurnar máttu þola á bak við tjöldin og inn í læstum herbergjum.

Þrátt fyrir að Larry Nassar sé löngu kominn í fangelsi og skipt hafi um yfirmenn hjá fimleikasambandinu þá er Simone Biles hvergi nærri sátt með stöðu mála. Hún heimtar sjálfstæða rannsókn á því hvernig svona gat gerst.

Simone Biles hefur alls unnið þrjátíu verðlaun á Ólympíuleikum og heimsmeistaramótum en hún er 23 ára gömul. Biles vann fjögur gull og ein bronsverðlaun á síðustu Ólympíuleikum í Ríó 2016.

Biles ræddi mál bandaríska fimleikasambandsins í nýju viðtali í 60 minutes þættinum á CBS. „Þetta er langt frá því að vera búið. Það er enn fullt af spurningum sem þarf að svara,“ sagði Simone Biles.

Fréttamaður 60 minutes þáttarins spurði Biles hvort hún myndi leyfa dóttur sinni að æfa á vegum bandaríska fimleikasambandsins.

„Nei. Vegna þess að ég er ekki sannfærð og líður ekki nógu vel með þetta af því að þau hafa ekki tekið ábyrgð á gjörðum sínum og hvað þau hafa gert. Þau hafa ekki enn fullvissað okkur um að þetta muni ekki koma fyrir aftur,“ sagði Biles.

Simone Biles finnst að bandaríska fimleikasambandið og bandaríska Ólympíunefndina hafi brugðist henni.

„Við færum þeim verðlaun. Við skilum okkar. Þið getið ekki sinnt ykkar starfi á móti. Þetta er ógeðslegt,“ sagði Biles.

Þegar Biles var spurð út í hvaða spurningum þyrfti að svara: „Bara hver vissi hvað og hvenær. Þið hafði brugðist svo mörgum íþróttamönnum og flest af okkur voru undir lögaldri,“ sagði Simone Biles.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.