Sport

Bannað að snertast en 150 þúsund smokkum dreift

Sindri Sverrisson skrifar
Fræg smokkaauglýsing fataframleiðandans Benetton sem birtist í blöðum í kringum Ólympíuleikana í Barcelona 1992.
Fræg smokkaauglýsing fataframleiðandans Benetton sem birtist í blöðum í kringum Ólympíuleikana í Barcelona 1992. Getty/Claire Mackintosh

Fremstu íþróttastjörnur heims hafa fengið misvísandi skilaboð í aðdraganda Ólympíuleikanna í Tókýó sem fara fram í sumar þrátt fyrir heimsfaraldurinn sem geysar.

Í 33 blaðsíðna leiðbeiningabæklingi sem skipuleggjendur Ólympíuleikanna hafa gefið út, varðandi sóttvarnareglur á leikunum, kemur fram að fólki verði að lágmarka snertingu við aðra eins og mögulegt sé. Þannig eru handabönd og faðmlög bönnuð, fólk á að dvelja eins stuttan tíma og hægt er í ólympíuþorpinu, sleppa því að fara á staði utan þorpsins, og þar fram eftir götunum.

Brjóti fólk reglurnar, sem verða endurskoðaðar eftir því sem nær dregur leikunum, á það á hættu að verða hent út af leikunum. 

Skipuleggjendur munu engu að síður dreifa miklum fjölda smokka í ólympíuþorpinu, líkt og á undanförnum Ólympíuleikum. Samkvæmt South China Morning Post verður 150 þúsund smokkum dreift. Að þessu hafa netverjar hent gaman og meðal annars spurt hvort nota eigi smokkana í stað sóttvarnagríma.

Smokkum hefur verið dreift á Ólympíuleikum frá því í Seúl í Suður-Kóreu árið 1988 þegar þeim var fyrst dreift til að hefta útbreiðslu HIV. Á leikunum í Ríó 2016 var 450.000 smokkum dreift.

Mælst til bólusetningar en hún er ekki skilyrði

Ólympíuleikarnir verða settir föstudaginn 23. júlí. Skipuleggjendur hvetja til þess að íþróttafólk verði bólusett áður en það mæti til Tókýó en það er þó ekki skilyrði til að fá að keppa.

Einn íslenskur íþróttamaður hefur tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum en það er sundmaðurinn Anton Sveinn McKee. Dagur Sigurðsson verður einnig á leikunum sem þjálfari japanska karlalandsliðsins í handbolta, og frjálsíþróttaþjálfarinn Vésteinn Hafsteinsson fylgir sjálfsagt lærisveini sínum Daniel Ståhl og fleirum á leikana.

Leikarnir áttu að fara fram síðasta sumar en var þá frestað um eitt ár vegna faraldursins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.