Erlent

Vísindamenn vilja grisja flóðhestahjörð Pablo Escobar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Flóðhestar eiturlyfjabarónsins voru upphaflega fjórir en árið 2007 hafði þeim fjölgað í sextán.
Flóðhestar eiturlyfjabarónsins voru upphaflega fjórir en árið 2007 hafði þeim fjölgað í sextán.

Vísindamenn segja nauðsynlegt að ráðast í grisjun flóðhestahjarðar sem varð til í kjölfar þess að eiturlyfjabaróninn Pablo Escobar var drepinn af lögreglu árið 1993, áður en hún fer að ógna plöntu og dýraríkinu þar sem hún hefur fjölgað sér.

Escobar safnaði exótískum dýrum á búgarð sinn en eftir að hann féll frá drápust dýrin eða voru flutt á brott. Flóðhestarnir voru hins vegar látnir vera, bæði vegna kostnaðarins við að flytja risastór dýrin og vegna ofbeldisins sem geisaði á svæðinu.

Tilraunir yfirvalda til að takmarka fjölgun skepnanna hafa lítinn árangur borið og hefur hjörðin stækkað úr 35 einstaklingum í 65 til 80 einstaklinga á síðustu átta árum.

Hópur vísindamanna hefur varað við því að flóðhestarnir ógni líffræðilegum fjölbreytileika á svæðinu og að þeir gætu orðið fólki að bana. Þeir hvetja til grisjunar á hjörðinni en að óbreyttu muni hún telja allt að 1.500 einstaklinga árið 2035.

Íbúum þykir orðið vænt um skepnurnar

Hugmyndirnar hafa þegar verið gagnrýndar en margir brugðust hart við þegar þrír flóðhestanna lögðu í leiðangur frá villu Escobar fyrir nokkrum árum og einn þeirra var drepinn af veiðimönnum.

Dýralæknir sem hefur tekið þátt í tilraunum yfirvalda til að gera skepnurnar ófrjóar, segist hafa verið kallaður „morðingi“ vegna þess hversu vinsælar þær eru.

Fólki á svæðinu þykir orðið vænt um flóðhestana, að hluta til vegna ferðamannanna sem þeir laða að villunni, sem hefur verið breytt í hálfgerðan skemmtigarð.

Rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að dýrin hafa áhrif á vatnið sem þau dvelja og skíta í og þá eru uppi áhyggjur af því að flóðhestarnir muni hrekja á brott innfædd dýr á borð við eina undirtegund amerísku sækýrinnar.

Guardian sagði frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.