Innlent

Kanna heimildir til að sekta þá sem sækja farþega

Birgir Olgeirsson skrifar
Jón Pétur Jónsson, yfirlögregluþjónn landamærasviðs Ríkislögreglustjóra.
Jón Pétur Jónsson, yfirlögregluþjónn landamærasviðs Ríkislögreglustjóra. Vísir/Sigurjón

Lögreglan telur vert að kanna heimildir til að beita sektum gagnvart þeim sem sækja komufarþega á Keflavíkurflugvöll. 90 sóttu farþega á flugvöllinn um liðna helgi.

Allir sem koma til landsins þurfa að gangast undir tvöfalda skimun og sóttkví. Borið hefur á því að fólk dvelji ekki í því húsnæði sem það tilkynnti stjórnvöldum að það ætlaði að taka út sóttkví í.

„Við teljum að það séu nokkur tilvik um að það hafi komið upp. Að fólk hafi vísvitandi verið að villa um fyrir stjórnvöldum, eða svona vísbendingar um það,“ segir Jón Pétur Jónsson, yfirlögregluþjónn á landamærasviði Ríkislögreglustjóra. 

Að meðaltali koma um 170 til 180 farþegar hingað til lands á degi hverjum. Nýgengi smita er með lægsta móti á Íslandi sem margir þakka ströngum reglum á landamærunum. Ríkislögreglustjóri vinnur nú að greiningu til að girða fyrir veikleika í núverandi kerfi. Brögð eru á því að fólk sæki farþega á Kelfavíkurflugvöll, sem er þvert á reglur.

„Lögreglan er með viðveru í komusalnum og ræðir við fólk sem er komið þangað og er að upplýsa um þessar reglur sem gilda um að koma sér í sóttkví frá landamærastöðinni. Núna um helgina töldum við um 90 tilvik þar sem einstaklingar voru komnir gagngert til að sækja farþega.“

Sumir segjast ætla að taka út sóttkví með farþegunum sem þeir sækja. Lögreglan hefur þó áhyggjur af því að margir fari ekki eftir því og smit gæti borist þannig út í samfélagið.

Jón Pétur segir til skoðunar að kanna sannleiksgildi fullyrðinga komufarþega um hvar þeir ætli að dvelja og skikka þá sem ekki geta gefið upp dvalarstað til að dvelja í farsóttarhúsi, líkt og sóttvarnalæknir hefur talað fyrir.

„Það má vel vera að það þurfi að ganga lengra í þessum efnum og kanna heimildir til að beita þá sektum sem sækja farþega,“ segir Jón Pétur. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×