Erlent

Níu milljónir skammta til viðbótar frá AstraZeneca

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Thierry Monasse/Getty

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, greinir frá því á Twitter í kvöld að lyfjafyrirtækið AstraZeneca muni sjá Evrópusambandinu fyrir níu milljónum skammta af bóluefni gegn covid-19 á þessum ársfjórðungi, til viðbótar við þær fjörutíu milljónir skammta sem gert var ráð fyrir í síðustu viku. Þá mun dreifing bóluefnisins frá fyrirtækinu hefjast viku fyrr en áætlað var. Áður höfðu Frakkar og Þjóðverjar hótað að höfða mál gegn AstraZeneca vegna skorts á bóluefni gegn covid-19.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti á föstudaginn skilyrt markaðsleyfi fyrir bóluefni lyfjafyrirtækisins AstraZeneca gegn Covid-19 í Evrópu. Fyrirtækið hefur sætt miklum þrýstingi af hálfu Evrópusambandsins en framkvæmdastjórn ESB virkjaði sama dag nýjar reglur sem veita sambandinu heimild til að banna útflutning á bóluefni frá ríkjum sambandsins, ef viðkomandi lyfjafyrirtæki hefur ekki staðið við samninga um afhendingu bóluefnis. Evrópusambandið dró þó fljótt í land og hætti við þessi áform sem strax sættu mikilli gagnrýni.

Guardian greindi frá því fyrr í dag að Frakkar og Þjóðverjar að höfða mál gegn AstraZeneca vegna seinagangs við afhendingu, jafnvel þótt fyrir liggi að seinaganginn megi rekja til vandkvæða við framleiðslu bóluefnisins í framleiðsluverksmiðju í Belgíu.

Embættisenn í Brussel hafa þó lýst efasemdum og hafa gefið í skyn að ástæðuna megi rekja til þess að fyrirtækið hafi dreift skömmtum bóluefnis sem framleiddir eru í Belgíu og Hollandi til Bretlands, sem líkt og kunnugt er er ekki lengur aðili að ESB. Að því er segir í tísti von der Leyen virðist nú sem betur gangi í samskiptum ESB og AstraZeneca en fyrirtækið hyggst að því er segir í tísti framkvæmdastjórans auka afkastagetu sína við framleiðslu bóluefnisins innan Evrópu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×