Erlent

Hvergi fleiri verið bólusettir en í Ísrael

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Bólusetning hefur gengið nokkuð smurt fyrir sig í Ísrael. 
Bólusetning hefur gengið nokkuð smurt fyrir sig í Ísrael.  EPA/ABIR SULTAN

Hlutfallslega hafa hvergi verið eins margir bólusettir gegn covid-19 en í Ísrael þar sem um 12% þjóðarinnar hefur þegar fengið fyrsta skammt bóluefnis. Rúmlega milljón íbúar hafa þegar verið bólusettir eða sem jafngildir 11,55 íbúum af hverjum hundrað. Það er sem stendur hæsta hlutfall bólusettra íbúa á heimsvísu samkvæmt frétt BBC.

Næst á eftir Ísrael kemur Barein, þar sem 3,49 af hverjum hundrað hafa verið bólusettir, og þá næst Bretland þar sem 1,47 af hverjum hundrað hafa fengið bóluefni. Þá eru Bandaríkin, Danmörk og Kína jafnframt ofarlega á lista.

Til samanburðar höfðu í heildina aðeins 138 einstaklingar verið bólusettir í Frakklandi þann 30. desember.

Það er Our World in Data, samstarfsverkefni Oxford-háskóla og bresks góðgerðafélags um menntun, sem hefur tekið saman tölfræðina yfir bólusetningar og borið saman milli ríkja. Tölurnar ná yfir fjölda þeirra sem hafa fengið fyrsta skammt bóluefnis í hverju ríki, en enn sem komið er nauðsynlegt að gefa tvo skammta af þeim tegundum bóluefnis sem þegar hafa fengið leyfi og eru komin í umferð.

Bandaríkjamenn náðu ekki markmiði sínu um að ná að bólusetja tuttugu milljónir fyrir lok 2020, en aðeins 2,78 milljónir höfðu fengið bóluefni þann 30. desember.

Bólusetning hófst í Ísrael 19. desember og hafa síðan um 150 þúsund manns á dag fengið sprautu. Áhersla er lögð á að bólsetja fyrst heilbrigðisstarfsfólk, þá sem eru komnir yfir sextugt og þá sem eru veikir fyrir. Ísraelar tryggðu sér birgðir af bóluefni frá Pfizer/BioNTech í viðræðum tiltölulega snemma í faraldrinum. Þá hefur dreifing bóluefnisins um landið gengið nokkuð smurt og vel fyrir sig.

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra hefur sagst eiga von á þið að Ísraelar geti losnað undan faraldrinum jafnvel strax í febrúar, en útgöngubann er í gildi í Ísrael í þriðja sinn frá því faraldurinn hófst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×