Fótbolti

Varð fyrir bíl á göngu frá Seattle á HM 2014 í Brasilíu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Richard heitinn Swanson.
Richard heitinn Swanson. Mynd/Facebook

42 ára gamall Bandaríkjamaður lét lífið þegar hann varð fyrir pallbíl um 400 kílómetra suður af Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna. Maðurinn ætlaði sér að ganga frá Seattle til Brasilíu eða um 16 þúsund kílómetra leið.

Maðurinn hét Richard Swanson og var atvinnulaus tveggja barna faðir. Hann starfaði á sínum tíma sem rannsóknarlögreglumaður og síðar sem grafískur hönnuður. Þegar hann missti vinnuna fór hann að velta möguleikum sínum fyrir sér.

Swanson hafði alltaf langað á HM í fótbolta og ákvað að slá til. Heimsmeistarakeppnin fer fram í Brasilíu sumarið 2014 og Swanson ákvað að fara óvenjulegri leið en flestir á stórmótið. Leiðin skyldi farin á tveimur jafnfljótum.

„Fyrst ég er að fara á HM ætti ég að rekja bolta alla leiðina keppninni til heiðurs,“ sagði Swanson í myndbandi sem hann tók upp áður en hann lagði af stað í gönguna löngu.

Swanson segist í myndbandinu hafa velt fyrir sér hvaða kjáni myndi gera slíkt, þ.e. hafa bolta með sér, og ætlað að hætta við það. Vinkona hans hafi þá bent honum á fyrirtæki sem framleiðir bolta sem eru sérhannaðir fyrir notkun í þróunarlöndum. Ending þeirra er mun meiri og ákvað Swanson að nota tækifærið og efndi til samstarfs við fyrirtækið.

Hann seldi húsið sitt og mat það sem svo að sonum hans sem eru 18 og 22 ára

yrði ekki meint af þótt hann legði upp í langferðina. Þá vissi enginn að ferðin yrði yfir móðuna miklu.

Fjölmargir hafa vottað fjölskyldu Swanson samúð sína bæði á Facebook-síðu göngunnar og við YouTube-myndbandið hér að ofan. Vilja margir að fótboltinn, sem fannst á vettvangi, verði fluttur til Brasilíu. Leggur einn til að fyrsta spyrna keppninnar verði með boltanum sem Swanson hafði gengið með 400 kílómetra af þeim 16 þúsund sem hann ætlaði sér.

Einn þeirra sem skrifar athugasemd á Facebook-síðunni er Devin, eldri sonur Swanson.

„Þú ert öllum innblástur með því að gera það sem þú elskar. Einn daginn mun ég ljúka ferðalaginu í þínu nafni.“

Swanson lagði af stað í göngu sína þann 1. maí en slysið átti sér stað í gær, þriðjudaginn 14. maí. Lögregluyfirvöld í Oregon rannsaka nú tildrög slyssins í samvinnu við ökumann pallbílsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×