Enski boltinn

West Ham úr leik í bikarnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stewart Downing fagnar marki sínu í kvöld.
Stewart Downing fagnar marki sínu í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Middlesbrough vann í kvöld 2-0 sigur á West Ham í ensku bikarkeppninni og mætir því Everton í fjórðungsúrslitum keppninnar.

Liðin skildu fyrst jöfn, 1-1, á heimavelli West Ham og þurftu því að mætast á nýjan leik í kvöld.

Bæði mörkin komu snemma í leiknum en það fyrsta skoraði Stewart Downing strax á fimmtu mínútu leiksins. Markið var sérlega glæsilegt en skotið kom beint úr aukaspyrnu og rataði boltinn í efra markhornið.

Tuncay Sanli bætti svo síðara marki Boro við stundarfjórðungi síðar með skot eftir að James Tomkins mistókst að hreinsa boltann frá marki West Ham.

David Di Michele fékk besta færi West Ham í leiknum en náði þó ekki að skora frekar en aðrir leikmenn liðsins. Boro hefði þess vegna getað skorað fleiri mörk í leiknum og var sigurinn því verðskuldaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×