Innlent

Skora á veitingamenn að lækka matarverð

MYND/HS

Ákvörðun stórs hóps veitingamanna að lækka ekki verðskrá sína í kjölfar lækkun virðisaukaskatts veldur áhyggjum. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar. Stjórnin segir veitingamenn með þessu skaða trúverðugleika samtakanna.

Í ályktun stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar er vísað til þess að samtökin hafi í áraraðir barist fyrir lækkun virðisaukskatts á tilbúnum mat. Könnun Neytendastofu bendi hins vegar til þess að aðeins 46 prósent veitingahúsa hafi kosið að skila þeim lækkunum til neytenda.

Að mati stjórnarinnar veldur það áhyggjum hversu fáir hafi kosið að lækka verð hjá sér. Þetta skaði hagsmuni og trúverðugleika samtakanna til lengri tíma og stjórninni þykir það miður hversu margir veitingamenn hafi látið skammtímasjónarmið ráða ferðinni.

Að lokum skorar stjórnin á þá félagsmenn sem enn hafa ekki lækkað verð að endurskoða afstöðu sína sem fyrst enda sé þörf á samstöðu í þessu máli.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×