Enski boltinn

Enska sambandið þarf að borga laun Gerrard meðan hann er meiddur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Mynd/AP
Enska knattspyrnusambandið þarf væntanlega að borga Liverpool um 500 þúsund pund eða rúmlega 90 milljónir íslenska króna vegna meiðslanna sem Steven Gerrard varð fyrir á móti Frökkum á Wembley á miðvikudaginn.

Steven Gerrard verður frá í þrjár til fjórar vikur og enska sambandið er eitt fárra sambanda í heiminum sem borgar laun leikmanna á meðan þeir eru að ná sér góðum af meiðslum sem þeir verða fyrir í verkefnum á vegum landsliðsins.

Newcastle United, Arsenal og Tottenham Hotspur hafa öll fengið bætur vegna meiðsla þeirra Michael Owen, Theo Walcott og Jermain Defoe.

Gerarrd er með 120 þúsund pund í vikulaun og þetta er því fljótt að verða mjög stór upphæð verði hann lengi frá en það er allt sem bendir til þess að Liverpool verði án hans í allt að fjórar vikur.

Þessar bætur hjálpa þó ekki Liverpool-liðinu inn á vellinum því liðið þarf væntanlega að spila án Gerrard í leikjum á móti West Ham United, Tottenham Hotspur, Steaua Búkarest, Aston Villa og jafnvel Newcastle United.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×