Erlent

Mannskæð gassprenging í Belgíu

Að minnsta kosti 14 létu lífið og 200 slösuðust í sprengingu í gasverksmiðju í Belgíu í morgun. Gasverksmiðjan er á Ghislenghien iðnaðarsvæðinu sem er um 30 kílómetra suð-austur af Brussel. Viðgerðarmenn voru að störfum við gasleiðslur sem liggja á um sex metra dýpi við verksmiðjuna um sjö leytið í morgun. Að sögn héraðsstjórans, er talið að viðgerðarhópurinn hafi gert gat á eina leiðsluna og við það hafi orðið sprenging. Sprengingin var svo öflug að hún fannst í um tíu kílómetra fjarlægð. Stór hluti verksmiðjunnar jafnaðist við jörðu og eldur kom upp í tveimur nærliggjandi verksmiðjum. Bílar sem voru í sæmilegri fjarlægð frá einni byggingunni eru allir brunnir og lengi vel teygðu eldtungur sig yfir hundrað metra upp í loftið. Meðal slasaðra eru lögreglu- og slökkvliðsmenn sem börðust við eldana. Belgíski heilbrigðisráðherrann, Rudy Demotte, hefur aflýst fríi í Búlgaríu og er á leið heim í herflugvél. Herinn hefur verið kallaður út til að aðstoða björgunarlið og búið er að loka nærliggjandi hraðbrautum. Íbúum í nágrenninu hefur verið ráðlagt að halda sig innandyra og loka öllum gluggum því þykkur mökkur lá yfir svæðinu eftir sprenginguna. Ekki er þó talið að gas í hættulegu magni hafi náð að leka út í loftið. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×