Innlent

Ríkisstjórnin boðar viðamiklar aðgerðir vegna samdráttar á aflaheimildum

Ríkisstjórnin kynnti tillögur um aflaheimildir í morgun. Samhliða því voru mótvægisaðgerðirnar kynntar.
Ríkisstjórnin kynnti tillögur um aflaheimildir í morgun. Samhliða því voru mótvægisaðgerðirnar kynntar. MYND/365

Ríkisstjórnin kynnti í morgun viðamiklar mótvægisaðgerðir í tengslum við verulegan samdrátt á aflaheimildum í þorski. Aðgerðirnar miða fyrst og fremst að því að styðja sjávarbyggðir og draga úr því tjóni sem samdrátturinn hefur í för með sér.

Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar skiptast annars vegar í skammtíma aðgerðir og hins vegar í langtíma aðgerðir.

Skammtímaaðgerðirnar skiptast í þrjá meginliði. Í fyrsta lagi aðgerðir sem horfa einkum til þess að draga úr áhrifum þeirrar tekjuskerðingar sem verður í kjölfar minnkunar þorskkvótans, jafnt hjá einstökum sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum. Byggðastofnun verður styrkt og þá verður veiðigjald vegna þorskveiða næstu tveggja fiskveiðiára fellt niður.

Í öðru lagi er um að ræða aðgerðir sem horfa til lengri tíma og miða að því að byggja samfélög við sjávarsíðuna upp og stuðla að fjölbreyttara og öflugra atvinnulífi. Í því tilliti verður er boðuð aukin áhersla á flutning opinberra starfa til landsbyggðarinnar.

Í þriðja eru tillögur um eflingu hafrannsókna og endurskoðun á ýmsum þáttum er lúta að stjórn fiskveiða.

Í aðgerðum sem horfa til lengri tíma verður meðal annars unnið að því að efla grunnstoðir atvinnulífsins á Vestfjörðum og styrkja samkeppnisstöðu svæðisins. Þá verður ráðist í sérstök átaksverkefni til að treysta atvinnuuppbyggingu á þessum svæðum.

Einnig verður skipuð nefnd fulltrúa allra þingflokka til að skoða reynsluna af aflamarkskerfinu í samræmi við stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Reglur um forkaupsrétt á aflaheimildum, framsali innan ársins, veiðiskyldu og byggðakvóta verða endurskoðaðar með það að markmiðið að auka stöðugleika í sjávarútvegi og sjávarbyggðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×