Enski boltinn

Cech ekki með næstu 3-4 vikurnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, staðfesti í morgun að markvörðurinn Petr Cech eigi við meiðsli í kálfa að stríða og að hann verði frá næstu 3-4 vikurnar.

„Þetta eru nokkuð alvarleg meiðsli í kálfa,“ sagði Wenger á fundinum en það kemur þá í hlut Kólumbíumannsins David Ospina að verja mark Arsenal næstu vikurnar. „Ég hef fulla trú á honum. Ég hef engar áhyggjur af þessu,“ sagði Wenger.

Sjá einnig: Cech: Stjörnufagnið það besta sem ég hef séð

Ospina er 27 ára og hefur verið í herbúðum Arsenal síðan 2014. Hann spilaði átján leiki í ensku úrvalsdeildinni í fyrra en engan á núverandi leiktíð.

Arsenal mætir Tottenham í grannaslag um helgina en leikurinn hefur þar að auki mikla þýðingu fyrir titilbaráttuna í Englandi. Tottenham er í öðru sæti deildarinnar með 54 stig, þremur stigum á eftir toppliði Leicester, en Arsenal er í því þriðja með 51 stig.

Koscielny einnig frá

Wenger staðfesti einnig á blaðamannafundi sínum í morgun að varnarmaðurinn Laurent Koscielny missi af leiknum en allir aðrir sem tóku þátt í tapleiknum gegn Swansea á miðvikudaginn eru klárir í slaginn.

Jack Wilshere er þó enn frá vegna meiðsla og staðfesti Wenger að það séu enn þrjár vikur í að hann geti byrjað að spila á nýjan leik.

Markvörðurinn David Ospina hóf ferilinn með Nacional í heimalandinu en fór svo til Nice í Frakklandi árið 2008, þar sem hann var í sex ár. Arsenal keypti hann svo á þrjár milljónir punda sumarið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×