Enski boltinn

Eigendur Liverpool vanmátu hversu lélegt liðið var þegar þeir keyptu það

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Steven Gerrard og Fernando Torres.
Steven Gerrard og Fernando Torres. vísir/getty
Edward Weiss, fyrrverandi aðallögmaður Fenway Sports Group, fjárfestingafélagsins sem á enska úrvalsdeildarliðið Liverpool, segir að eigendurnir vanmátu hversu slakt liðið var þegar þeir keyptu félagið árið 2010.

John W. Henry og félagar sáu bara einn leik með Liverpool áður en þeir keyptu enska félagið á 295 milljónir punda, en vissu ekki að leikmenn á borð við Fernando Torres og Pepe Reina væru komnir á síðustu metrana, eins og Weiss orðar það.

„Við vanmátum hversu lítil gæði voru í hópnum og ef ég á að vera heiðarlegur vanmátum við hversu erfitt það yrði að koma stöðugleika á eignina,“ sagði Weiss, en Sky Sports greinir frá.

Lögmaðurinn ræddi þessi mál í lagadeilu George Gillett, fyrrverandi eiganda Liverpool, og fjárfestingahópsins Mill Financial sem einnig vildi kaupa Liverpool á þessum tíma.

„Augljóslega gerðum við áreiðanleikakönnun á hópnum áður en við gengum frá kaupunum í október 2010. Það sem við áttum eftir að komast að hversu lélegt liðið var,“ segir Weiss.

„Við vorum með fáa topp leikmenn á borð við Steven Gerrard. Aðrir leikmenn á borð við Fernando Torres og Pepe Reina voru líklega komnir yfir sitt besta.“

„Við mættum aðeins á einn leik þegar við gerðum áreiðanleikakönnunina. Flestir okkar höfðu aldrei séð leik í ensku úrvalsdeildinni. Leikurinn sem við sáum heillaði ekki,“ segir Edward Weiss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×