Enski boltinn

Birni Bergmann og félögum tókst ekki að koma í veg fyrir að Middlesbrough færi á toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gastón Ramírez skoraði tvö mörk í kvöld.
Gastón Ramírez skoraði tvö mörk í kvöld. Vísir/Getty
Middlesbrough komst á topp ensku b-deildarinnar eftir 2-1 sigur á Wolverhampton í kvöld.

Middlesbrough fór upp fyrir Burnley með þessum sigri og er nú með tveggja stiga forskot í deildinni.  Liðið byrjaði árið ekki sannfærandi og því kom þessi sigur sér mjög vel.

Hull er í þriðja sætinu, þremur stigum á eftir Middlesbrough og einu stigi á eftir Burnley.

Björn Bergmann Sigurðarson spilaði allan leikinn með Wolverhampton í kvöld. Mark liðsins kom mínútu fyrir leikslok og bar það sjálfsmark hjá varnarmanni Middlesbrough.

Úrúgvæmaðurinn Gastón Ramírez skoraði bæði mörk Middlesbrough í leiknum en hann kom til liðsins í janúarglugganum.

Björn Bergmann Sigurðarson er orðinn fastamaður í liði Úlfanna en hann var að spila allar 90 mínúturnar í sjötta leiknum í röð. Hann á hinsvegar enn eftir að skora deildarmark eftir að hann kom til baka eftir meiðsli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×