Enski boltinn

Ívar byrjaður í endurhæfingu

NordicPhotos/GettyImages

Ívar Ingimarsson, leikmaður Reading, fór í uppskurð vegna hnémeiðsla fyrir skömmu og er nú byrjaður í endurhæfingu eftir því sem fram kemur í Reading Chronicle í dag.

Ívar var orðinn sárþjáður af meiðslum sínum og telur að hann hefði ekki mátt draga mikið lengur að fara í uppskurð, því þá hefði geta farið illa.

"Ég var búinn að vera lengi með verk í hnénu, en allir leikmenn finna til hér og þar í skrokknum og ef menn ætluðu að láta það stöðva sig, myndu þeir aldrei spila neitt," útskýrði Ívar.

"Í september var ég orðinn mjög áhyggjufullur því myndataka sýndi að ekki væri allt með felldu og meiðslin versnuðu í framhaldi af því. Síðustu dagana fyrir aðgerð gat ég ekki einu sinni gengið," sagði Ívar.

Hann segist ekki klár á því hvenær hann geti farið að spila á ný, en tæpt er að það verði á þessari leiktíð.

"Ég er strax byrjaður í endurhæfingu og hitti lækninn aftur fljótlega. Þá vitum við betur hvort ég get spilað aftur en ég get ekki sagt til um hvort það verður núna eða á næstu leiktíð. Ég hef aldrei meiðst alvarlega áður og því er þetta allt nýtt fyrir mér," sagði Ívar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×