Innlent

Von á tveimur sendinefndum að skoða aðstæður í Þorlákshöfn

MYND/Einar Elíasson

Norski álrisinn Norsk Hydro hefur óskað eftir upplýsingum um Þorlákshöfn og nágrenni með tilliti til álframleiðslu í sveitarfélaginu Ölfus. Frá þessu er greint í Sunnlenska fréttablaðinu í dag og enn fremur sagt að von sé á fulltrúum fyrirtækisins til Þorlákshafnar á næstu vikum til að skoða aðstæður ásamt fullrúum frá öðrum hópi sem hafi áhuga á svæðinu.

 

Bjarne Reinholdt, starfsmaður Norsk Hydro á Íslandi, átti fund með Kjartani Ólafssyni, formanni atvinnumálanefndar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og þingmanni, og Þorvarði Hjaltasyni, framkvæmdastjóra samtakanna, í desember síðastliðnum þar sem upplýsingum var komið á framfæri sem síðar voru sendar til höfuðstöðvanna í Noregi.

Áður hefur verið greint frá því að félag í eigu Jóns Hjaltalíns Magnússonar, Arctus, hafi fengið úthlutað lóð vestan byggðarinnar í Þorlákshöfn með það fyrir augum að reisa þar álver og endurbræðslu á áli til frekari úrvinnslu. Hefur Sunnlenska fréttablaðið heimildir fyrir því að sendinefnd á vegum fjárstekra risafyrirtækja í áliðnaði í Asíu og Bandaríkunum sem Arctus hafi verið í viðræðum við sé einnig væntanleg til Þorlákshafnar til að kynna sér aðstæður fyrir stóriðju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×