Innlent

Reyndu að stöðva framkvæmdir í Álafosskvosinni

Íbúar í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ kölluðu á lögreglu í dag til að reyna að stöðva framkvæmdir í kvosinni. Íbúarnir segja framkvæmdirnar ólöglegar enda tengist þær lagningu Helgafellsbrautar. Bæjarstjóri segir það kolrangt, aðeins sé verið að leggja skólp.

Nokkrar deilur hafa staði um lagningu tengibrautar milli Helgafellslands og Álafossvegar í Mosfellsbæ. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar samþykkti í desember síðastliðnum deiliskipulag fyrir fimm hundruð metra kafla tengibrautarinnar og gaf út framkvæmdaleyfi.

Samþykkt Mosfellsbæjar um deiliskipulagið og framkvæmdaleyfið var kærð til úrskurðarnefndar skiplags- og byggingarmála í lok janúar af nítján íbúum og eigendum fasteigna við Brekkuland og Álafossveg. Úrskurðarnefndin ákvað í febrúar að stöðva framkvæmdir tímabundið meðan ákveðin atriði yrðu skoðuð betur.

Í gær var byrjað að grafa á svæðinu og urðu íbúarnir þá æfir. Bæjarstjóri segir framkvæmdirnar ekkert hafa með lagningu tengibrautarinnar að gera heldur sé verið að grafa fyrir skólplögnum. Þær þurfi að leggja hvort sem tengibrautin komi eða ekki.

Íbúarnir segja framkvæmdirnar ólöglegar og það að verið sé að grafa fyrir skólplögnum aðeins yfirvarp. Þeir kölluðu til lögreglu í dag og óskuðu eftir því að hún stöðvaði framkvæmdirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×