Innlent

Sum skattaskjólsmálanna gætu verið fyrnd

Skattrannsóknarstjóri segir að elstu málin séu fimmtán ára gömul.
Skattrannsóknarstjóri segir að elstu málin séu fimmtán ára gömul.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir viðbúið að einhver mál í skattaskjólsgögnunum, sem standa íslenska ríkinu til boða, séu fyrnd en elstu málin eru fimmtán ára gömul.

Bryndís tilkynnti í gær að gengið yrði til samninga við seljanda gagna um Íslendinga í skattaskjólum á grundvelli yfirlýsingar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra frá því í fyrradag. Hún segir engu hægt að lofa um árangur af skattheimtu að svo stöddu.

Í yfirlýsingunni frá ráðherra sagði að skylda til mats á upplýsingunum sem í boði eru, að hversu miklu gagni þær geta komið við rannsókn á skattundanskotum og ákvörðun um kaup á þeim, lægi hjá embætti skattarannsóknarstjóra. Fjármála- og efnahagsráðuneytið væri tilbúið að greiða fyrir kaupunum, yrði það niðurstaða embættisins.

Gögnin tengjast eignum Íslendinga í skattaskjólum en um er að ræða 416 mál. Íslenskum stjórnvöldum hefur verið boðið að kaupa þessi gögn á 150 milljónir króna.

„Hluti af þessum gögnum er nokkuð nýlegur en önnur eldri. Þannig að ég ætla það, svona fyrirfram, að hluti af þessu verði fyrndur en annað ekki,“ segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×