Innlent

And­lát: Guð­rún Ögmunds­dóttir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Guðrún Ögmundsdóttir.
Guðrún Ögmundsdóttir. alþingi

Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður og borgarfulltrúi, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi í gærmorgun. Guðrún hafði legið inni á líknardeild í fjóra daga áður en hún féll frá en hún hafði  barist við krabbamein um nokkurt skeið. Eiginmaður Guðrúnar greindi frá þessu í færslu á Facebook í dag.

Guðrún sat á Alþingi fyrir Samfylkinguna frá 1999 til 2007 og gegndi hún embætti borgarfulltrúa frá 1992 til 1998. Þar áður hafði hún verið varaborgarfulltrúi.

Guðrún fæddist í Reykjavík þann 19. október 1950. Hún nam félagsfræði og félagsráðgjöf við Roskilde Universitetscenter og lauk þaðan prófi 1983. Þá fór hún í framhaldsnám við sama skóla í fjölmiðlafræði 1983-1985.

Hún vann ýmis störf áður en hún hóf nám, meðal annars á dagskrárdeild RÚV, sem sviðsmaður í Þjóðleikhúsinu, uppeldisfulltrúi við sérdeildir Hlíðaskóla og starfaði á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Á árunum 1985 til 1988 starfaði hún hjá SÍNE, var verkefnisstjóri hjá LÍN, sá um handleiðslu hjá Styrktarfélagi vangefinna, var framkvæmdarstjóri námskeiða fyrir aðstandendur fatlaðra  barna og félagsmálafulltrúi hjá Sjálfsbjörg. Hún var yfirfélagsráðgjafi hjá kvennadeild Landspítala frá 1988 til 1994, var stundakennari við lækna- og félagsvísindadeild HÍ og deildarstjóri félagsmálaráðuneytisins 1998 til 1999.

Frá því að Guðrún lauk störfum á þingi hefur hún starfað sem sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu og síðar sem tengiliður vegna vistheimila hjá dómsmálaráðuneytinu auk þess sem hún var formaður Unicef frá 2016 til 2018.

Guðrún var gift Gísla Arnóri Víkingssyni og átti tvö börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×