Erlent

Svíar grípa til aðgerða vegna faraldursins

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessi mynd var tekin á veitingahúsi í Stokkhólmi um helgina.
Þessi mynd var tekin á veitingahúsi í Stokkhólmi um helgina. EPA/Janerik Henriksson

Frá því að nýja kórónuveiran byrjaði að herja á heiminn hafa Svíar þótt einkennilega rólegir gagnvart heimsfaraldrinum. Danir, Norðmenn og Finnar hafa meðal annarra gripið til umfangsmikilla inngripsaðgerða og lokað skólum, fyrirtækjum og öðru. Svíar hafa hins vegar ekki gripið til sambærilegra aðgerða og skilyrði varðandi sóttkví hafa verið mun slakari en annars staðar.

Samkomubanni hefur þó verið beitt og var viðmið þess lækkað úr 500 í 50 á föstudaginn. Þá voru frekari aðgerðir kynntar í dag.

Heilt yfir hafa 4.028 greinst með veiruna og 146 hafa dáið vegna hennar. Þá er 341 á gjörgæslu og þar á meðal minnst tveir læknar. Þessar tölur hafa hækkað hratt undanfarna daga og sérstaklega fjöldi látinna og fjöldi fólks á gjörgæslu.

Sænskir heilbrigðisstarfsmenn kvarta nú mikið yfir skorti á almennum hlífðarbúnaði. Samkvæmt rannsókn SVT er sá vandi svo gott sem landlægur.

Erfiðir tímar framundan

Fyrir helgi varaði Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, við því að erfiðir tímar væru handan við hornið. Svíar ætla sér að auka skimun fyrir Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur, til muna á næstunni og sérstaklega gagnvart mikilvægum starfsstéttum eins og heilbrigðisstarfsmönnum.

Á blaðamannafundi skömmu fyrir hádegi í dag, að íslenskum tíma, tilkynnti Löfven frekari aðgerðir til að sporna gegn dreifingu veirunnar. Hann sagði það skyldu hvers Svía að vernda sig og aðra og hvatti almenning til að halda sig heima um páskana.

Meðal þeirra aðgerða sem grípa á til er að heimsóknir á dvalarheimili verða bannaðar.

Isabella Lövin, aðstoðarforsætisráðherra, þakkaði öllum þeim sem hafa haldið sig heima á fundinum og sömuleiðis þeim sem hjálpað hafa öðrum sem þurfa að halda sig heim, til dæmis með því að færa þeim matvæli.

Ríkisstjórn Löfven gerir ráð fyrir að efnahagur ríkisins muni dragast saman um fjögur prósent á þessu ári. Magdalena Andersson, fjármálaráðherra, sagði í morgun að atvinnuleysi yrði allt að níu prósent og það gæti tekið hagkerfið nokkur ár að jafna sig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×