Erlent

Sögur af endurkomu dýralífs vegna faraldursins orðum auknar

Kjartan Kjartansson skrifar
Gondólar liggja nú bundnir við bryggju vegna útgöngubanns á Ítalíu. Vatnið í síkjum Feneyja er tærara vegna minni bátaumferðar en það er ekki endilega hreinna eins og vinsælar samfélagsmiðlafærslur hafa gefið til kynna.
Gondólar liggja nú bundnir við bryggju vegna útgöngubanns á Ítalíu. Vatnið í síkjum Feneyja er tærara vegna minni bátaumferðar en það er ekki endilega hreinna eins og vinsælar samfélagsmiðlafærslur hafa gefið til kynna. AP/Anteo Marinoni/LaPresse

Töluvert ber nú af misvísandi sögum og fréttum á samfélagsmiðlum af því að dýralíf blómstri í borgum sem hafa verið settar í sóttkví vegna kórónuveirufaraldursins. Sumar þeirra eru sagðar bókstaflega falsaðar en aðrar misvísandi.

Svanir og höfrungar eiga að hafa láti aftur á sér kræla í Feneyjum vegna minni mengunar frá athöfnum manna í faraldrinum og fílahjörð gerði sér glaðan dag í kínversku þorpi á meðan mannfólkið hélt sig fjarri hvert öðru samkvæmt fréttum sem var dreift víða á samfélagsmiðlum eins og Instagram og Tik Tok.

Færslurnar hafa jafnvel orðið að fréttum í virðulegum fjölmiðlum, þar á meðal í breska blaðinu The Guardian.

Að sögn náttúruvísindatímaritsins National Geographic áttu þessar vinsælu samfélagsmiðlafréttir sér þó ekki stoð í raunveruleikanum. Þannig eru svanir tíðir gestir í síkjum Burano á Fenyjasvæðinu þvert á það sem ætla mátti af vinsælli samfélagsmiðlafærslu. Myndir sem voru teknar af höfrungum sem áttu að vera komnir aftur til Feneyja voru í raun teknar við ítölsku eyjuna Sardiníu í Miðjarðarhafi, hundruð kílómetra frá Feneyjum.

Eins var með myndir af fílahjörð sem var sögð hafa ruðst inn í þorp í Yunnan-héraði í Kína og fílarnir orðið svo hífaðir af kornvíni að þeir hafi sofnað í garði. Fílar fóru vissulega í gegnum þorpið nýlega en það er ekki óvanalegt. Myndirnar sem fóru sem eldur í sinu um samfélagsmiðla voru heldur ekki af þeim. Fílarnir urðu heldur ekki ölvaðir.

Of margir líkað við tístið til að eyða því

National Geographic ræddi við indverska konu sem tísti myndum af svönum í Feneyjum sem um milljón Twitter-notendur líkuðu við. Hún segir tímaritinu að hún hafi séð myndirnar á samfélagsmiðli og ákveðið að setja þær saman í tíst. Hún hafi ekki vitað að svanir væru fastagestir í Burano og aldrei hvarflaði að henni að tístið ætti eftir að fara sigurför um netheiminn.

„Tístið snerist um að deila einhverju sem færði mér gleði á þessum drungalegu tímum. Ég vildi að það væri breytingavalmöguleiki á Twitter fyrir augnablik einmitt eins og þetta,“ segir Kaveri Ganapathy Ahuja sem býr í Nýju-Delí.

Hún hefur engu að síður ekki eytt tístinu og segist ekki ætla að gera. Aldrei áður hafi hún fengið eins mikil viðbrögð við tísti og því vilji hún ekki kasta því fyrir róða.

Vefsíðan Snopes, sem sérhæfir sig í að staðfesta og hrekja fréttir og fullyrðingar sem fara á flug, bendir á að jafnvel þó að vatnið á myndum frá Feneyjum virðist hreinna nú en áður sé það ekki endilega tilfellið. Vatnið líti vissulega út fyrir að vera tærarar en það sé ekki endilega hreinna. Ástæðan sé líklega sú að vegna útgöngubanns í Feneyjum og annars staðar á Ítalíu hafi dregið verulega úr bátaumferð sem þyrlar alla jafna upp seti í vatninu og gerir það gruggugt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×