Innlent

Vilja að beðist verði afsökunar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra.
Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra. Vísir/vilhelm

Þrettán þing­menn tveggja flokka hafa lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu þess efnis að Alþingi lýsi því yfir að rangt hafi verið að samþykkja máls­höfðun gegn fjór­um ráðherr­um í september 2010 vegna starfa þeirra í rík­is­stjórn Íslands fyr­ir efna­hags­hrunið. Auk þess eigi ráðherr­arn­ir skilið af­sök­un­ar­beiðni.

Geir H. Haar­de, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra var eini ráðherr­ann sem var ákærður og færður fyr­ir lands­dóm. Þau Ingi­björg Sól­rún Gísla­dótt­ir fyrrverandi ut­an­rík­is­ráðherra, Björg­vin G. Sig­urðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra og Árni Mat­hiesen fyrrverandi fjár­málaráðherra voru ekki ákærð.

Sambærileg þingsályktunartillaga hefur tvívegis áður verið lögð fram. Þingflokkur Miðflokksins stendur að baki tillögunni auk fjögurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Í tillögu segir að lagt sé til að Alþingi álykti að rangt hafi verið að leggja til málshöfðun á hendur ráðherrum vegna pólitískra aðgerða eða aðgerðaleysis, að ranglega hafi verið staðið að atkvæðagreiðslu um tillöguna og að rangt hafi verið að samþykkja hana. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er meðal flutningsmanna tillögunnar sem lögð var fram í dag.Vísir/Vilhelm

Enn fremur er lagt til að Alþingi álykti að þeir fyrrverandi ráðherrar sem upphaflega þingsályktunartillagan beindist gegn, og sá ráðherra sem loks var ákveðið að höfða mál gegn,  verðskuldi afsökunarbeiðni frá hlutaðeigandi aðilum.

Í tillögunni segir að niðurstaða Landsdóms sýni að ekki hafi verið tilefni til ákæru og að atkvæðagreiðsla um málshöfðun hafi farið eftir pólitískum línum. „Mikilvægt er að árétta að dómsvaldi megi aldrei beita í pólitískum tilgangi,“ segir í greinargerð.

Þá segir að lýðræðislegu stjórnarfari landsins standi ógn af því að reynt sé að fá starfandi eða fyrrverandi stjórnmálamenn dæmda til fangelsisvistar vegna pólitískra aðgerða eða aðgerðaleysis án þess að um hafi verið að ræða ásetning um brot.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×