Íslenski boltinn

Missa þjálfara fyrir frumraunina í Pepsi Max deildinni

Sindri Sverrisson skrifar
Guðni Þór Einarsson stendur nú einn eftir sem aðalþjálfari Tindastóls en leit er hafin að eftirmanni Jóns Stefáns.
Guðni Þór Einarsson stendur nú einn eftir sem aðalþjálfari Tindastóls en leit er hafin að eftirmanni Jóns Stefáns. Sigurbjörn Andri Óskarsson

Jón Stefán Jónsson hefur ákveðið að láta af störfum sem annar þjálfara kvennaliðs Tindastóls í fótbolta sem leika mun í efstu deild, Pepsi Max-deildinni, í fyrsta sinn á næstu leiktíð.

Í frétt Feykis er vitnað til fréttatilkynningar frá knattspyrnudeild Tindastóls þar sem segir að leit sé hafin að eftirmanni Jóns Stefáns.

Jón Stefán og Guðni Þór Einarsson hafa stýrt Tindastóli saman frá árinu 2018 þegar liðið var í 2. deild. Undir þeirra stjórn unnu Stólarnir Lengjudeildina á síðustu leiktíð en liðið vann 15 af þeim 17 leikjum sem það spilaði áður en lokaumferðin var blásin af vegna kórónuveirufaraldursins.

Jón Stefán hefur samhliða því að þjálfa Tindastól verið íþróttafulltrúi Þórs á Akureyri þar sem hann er búsettur. Hann var nálægt því að hætta hjá Tindastóli í fyrravetur en snerist þá hugur.

„Eftir þrjú ár af ótrúlegum ævintýrum finnst mér kominn tími til að láta staðar numið. Mér finnst mikilvægt að stelpurnar okkar fái þjálfara sem getur verið búsettur á Króknum og þar sem algjörlega útséð er um það vegna vinnu minnar þá ákvað ég að setja hagsmuni stelpnanna framar mínum eigin,“ segir Jón Stefán í yfirlýsingu.

„Það er ekkert smá erfitt að skilja við stelpurnar á þessum tímapunkti, bæði vegna þess að ég er sannfærður um að ævintýri þeirra og Tindastóls í efstu deild sé bara rétt að byrja og vegna þess að það hefur verið draumur minn að þjálfa í efstu deild sem aðalþjálfari,“ segir Jón Stefán en yfirlýsinguna má lesa í heild í frétt Feykis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×