Fótbolti

Hágrét í viðtali eftir að San Marínó náði aftur í stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dante Carlos Rossi var að spila sinn fimmta landsleik fyrir San Marinó en þeir hafa allir verið á árinu 2020.
Dante Carlos Rossi var að spila sinn fimmta landsleik fyrir San Marinó en þeir hafa allir verið á árinu 2020. Getty/Jonathan Moscrop

Þjóðadeildin skiptir sumar þjóðir alveg gríðarlega miklu máli og það sást vel á sjónvarpsviðtali við varnarmann San Marínó.

Dante Rossi, varnarmaður San Marinó, brotnaði niður í sjónvarpsviðtali eftir að San Marinó hafði gert markalaust jafntefli við Gíbraltar í Þjóðadeildinni.

Rossi kom í viðtal eftir að San Marinó hafði þarna náð í stig í tveimur leikjum í röð í fyrsta sinn í sögunni.

Báðir leikirnir hafa endað með marklausu jafntefli, fyrst á móti Liechtenstein og svo á móti Gíbraltar. Rossi og félagar í vörninni hafa því haldið hreinu í báðum leikjunum.

Dante Rossi réð ekki við tilfinningarnar í viðtali eftir leikinn. „Ég sagði að ég ætlaði ekki að gráta en ég mun gráta. Þetta er gjöf til litlu, stóru, stóru þjóðar minnar,“ sagði Dante Rossi sem er fæddur í Argentínu en spilaði í fyrsta sinn fyrir San Marinó í september síðastliðnum.

San Marinó missti fyrirliðann Davide Simoncini af velli með rautt spjald á 49. mínútu en náði að landa stigi tíu á móti ellefu.

„Þetta er eins og draumur fyrir mig og ég á ekki mörg orð. Fjölskyldan mín er ánægð og eiginkonan líka. Ég vil þakka liðsfélögum mínum og öllu starfsfólkinu. Við höldum vonandi áfram á þessari braut sem lengst,“ sagði Rossi

„Ég tileinka þjóðinni þetta jafntefli. Við erum lítil þjóð en erum með stórt hjarta. Ég bið fjölskyldu mína, eiginkonuna og alla vinina samt afsökunar á þessum tárum,“ sagði Dante Rossi.

San Marinó hefur aðeins unnið einn leik frá upphafi og það var 1-0 sigur á Liechtenstein í vináttulandsleik árið 2004.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.