Innlent

„Þetta mál er á milli 180% og 190% þvættingur“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gefur lítið fyrir útreikninga Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, sem hefur fylgst með mætingu þingmanna í nefndarstörf.

Eins og Vísir hefur greint frá reiknaði Björn Leví raunmætingu þingmanna í hlutfalli við þá mætingu sem ætlast er til af þeim. Þá tók hann tímann á hversu seint þingmenn hafa mætt samtals á fundi. Þar er Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hvað seinastur. Samkvæmt útreikningum Björns hefur hann samtals mætt 13 klukkustundum og 42 mínútum of seint á nefndarfundi. Ásmundur er þó með mætingu upp á rúmlega 90% samkvæmt útreikningum Björns.

Fjármálaráðherra tjáði sig um málið á Twitter-síðu sinni fyrr í dag.

„Fín mæting hjá Ása, yfir 90%. Björn Leví hér með einkunnakerfi sem gefur bónusstig fyrir áheyrnarfulltrúa eins og hann sjálfan (stjórnarfl. hafa enga). Þannig getur Björn reiknað sjálfan sig í 163% mætingu. Þetta mál er á milli 180% og 190% þvættingur,“ tísti Bjarni.

Í tísti sínu vísar Bjarni til þess að Björn Leví er skráður með yfir 100% mætingu á fundi, ásamt fleiri þingmönnum. Ber þar að nefna Hönnu Katrínu Friðriksson, þingmann Viðreisnar, sem skráð er með 184% mætingu, hæst allra.

Björn Leví fór yfir ástæður þessa í viðtali við Vísi.

„Stundum fer prósent mætingar yfir 100 prósent. Það er vegna áheyrnarfulltrúa sem mæta á aukafundi sem þeir eru ekki aðalmenn í og mæta þannig á miklu fleiri fundi en þau eiga að mæta á,“ sagði Björn Leví í samtali við Vísi þegar mætingarskráningin var til umfjöllunar.

Hér að neðan má sjá umfjöllun Vísis um mætingarbókhald Björns Leví.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.