Erlent

Deila Nóbelnum í eðlisfræði fyrir uppgötvanir á svartholum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fulltrúa sænsku Nóbelsnefndarinnar með glæru með myndum af verðlaunahöfunum í Stokkhólmi í morgun.
Fulltrúa sænsku Nóbelsnefndarinnar með glæru með myndum af verðlaunahöfunum í Stokkhólmi í morgun. AP/Frederik Sandberg/TT

Þrír vísindamenn deila Nóbelsverðlaunum í eðlisfræði í ár fyrir uppgötvanir þeirra á svartholum. Nóbelsnefndin greindi frá verðlaunahöfunum nú í morgun.

Bretinn Roger Penrose hlýtur verðlaunin fyrir að uppgötva að „myndun svarthola sé áreiðanleg spá sem leiðir af almennu afstæðiskenningunni“. Hann deilir verðlaununum með Þjóðverjanum Reinhard Genzel og Bandaríkjamanninum Andreu Ghez sem uppgötvuðu risasvartholið í miðju Vetrarbrautarinnar okkar, að sögn AP-fréttastofunnar.

Verðlaunahafarnir fá gullpening og verðlaunafé sem nemur tíu milljónum sænskra króna, jafnvirði um 155 milljóna íslenskra króna.

Tilvist svarthola, fyrirbæra sem eru svo massamikil og þétt að ekki einu sinni ljós getur flúið þyngdarkraft þeirra, var lengi vel aðeins fræðileg tilgáta sem leiddi af almennri afstæðiskenningu Alberts Einstein í hugum eðlisfræðinga. Það var ekki fyrr en á 7. áratug síðustu aldar sem Penrose og vinur hans Stephen Hawking heitinn sýndu fram á með útreikningum að þau gætu í raun og veru myndast.

Þau Genzel og Ghez voru leiðandi við rannsóknir á miðju Vetrarbrautarinnar þar sem vísindamenn grunaði að eitthvað dularfullt ætti sér stað. Stjörnur virtust þar ganga í kringum fyrirbæri sem var að öðru leyti ósýnilegt. Í ljós kom að í hjarta Vetrarbrautarinnar var tröllvaxið svarthol, um fjórum milljónum sinnum massameira en sólin.

Síðan þá hafa athuganir leitt í ljós að risasvarthol er að finna í miðju flestra vetrarbrauta í alheiminum. Í sumum tilfellum eru svartholin með massa sem er milljörðum sinnum meiri en sólarinnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×