Lífið

Úr glamrokki yfir í Sigmund Davíð

Stefán Árni Pálsson skrifar
Anton Helgi Hannesson gengur undir sviðsnafninu Anton How.
Anton Helgi Hannesson gengur undir sviðsnafninu Anton How.

Sigmundur Davíð er meðal viðfangsefna í glænýrri rafplötu eftir tónlistarmanninn Anton Helga Hannesson undir sviðsnafninu Anton How. Anton er þekktur sem forsprakki pönkrokk-hljómsveitarinnar InZeros og stofnandi vinsælustu glamrokkhljómsveitar Íslands, Diamond Thunder.

„Þetta er svo sem eðlileg þróun í tónlistarferlinum. Úr glamrokki yfir í pönkrokk og svo að lokum raftónlist. Sigmundur Davíð er alltaf góður innblástur,“ segir Anton í góðu gríni.

Lagið Hótel Reykjavík er fyrsta af fjórum í nýja raftónlistarverkefni Antons, sem er nokkurs konar uppgjör ársins 2016 í Reykjavík. Ferðamannaiðnaður er í hæstu hæðum, æðstu stjórnendur landsins birtast í Panama-skjölunum og fjölmargir Íslendingar hafa flust til Noregs vegna skulda í kjölfar hruns.

Umfangsefni Hótels Reykjavík er því að sjálfsögðu túristabærinn Reykjavík en þar kemur Sigmundur Davíð við sögu, mávum er breytt í lunda og menningin er dæmd óþörf í kommentakerfum um listamannalaun.

Haukur Hannes, sem er best þekktur sem gítarleikari metalhljómsveitarinnar Gone Postal, sá um hljóðblöndun. Pródúsentinn Bjarki Ómarsson, betur þekktur sem Bo Marz, sem skrifaði nýlega undir samning hjá Sony Music, sá um að mastera lögin fyrir Anton.

Sara Rut Fannarsdóttir listamaður útbjó plötuumslagið, sem er litríkt og fullt af smáatriðum af ringulreiðinni í Reykjavík.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.