Íslenski boltinn

Sveindís, Alexandra og Karólína allar í byrjunarliðinu gegn Lettum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir leikur sinn fyrsta landsleik gegn Lettlandi í kvöld.
Sveindís Jane Jónsdóttir leikur sinn fyrsta landsleik gegn Lettlandi í kvöld. vísir/vilhelm

Jón Þór Hauksson hefur tilkynnt byrjunarlið Íslands fyrir leikinn gegn Lettlandi í undankeppni EM. Leikurinn hefst klukkan 18:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst hálftíma fyrir leik.

Sveindís Jane Jónsdóttir er í byrjunarliðinu og leikur sinn fyrsta landsleik. Samherjar hennar í Breiðabliki, Alexandra Jóhannsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, eru einnig í byrjunarliðinu. Þetta er í fyrsta sinn sem Karólína byrjar keppnisleik með landsliðinu. Sveindís, Alexandra og Karólína eru allar tuttugu ára eða yngri.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er hægri bakvörður, Hallbera Gísladóttir er á sínum stað í stöðu vinstri bakvarðar og Glódís Perla Viggósdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir miðverðir. Sandra Sigurðardóttir er í markinu.

Evrópumeistarinn Sara Björk Gunnarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir og Alexandra eru á miðjunni, Sveindís og Karólína á köntunum og Elín Metta Jensen fremst.

Sara leikur sinn 132. landsleik í dag en hún jafnar væntanlega leikjamet Katrínar Jónsdóttur með landsliðinu þegar Ísland tekur á móti Svíþjóð á þriðjudaginn.

Ísland hefur unnið alla þrjá leiki sína í undankeppninni. Fyrri leik Íslands og Lettlands lauk með 0-6 sigri Íslendinga.

Leikur Íslands og Lettlands er í beinni textalýsingu á Vísi sem má finna hér.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.