Erlent

Leiðtogar heimsins sagðir hafa brugðist vegna Covid-19

Samúel Karl Ólason og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Nýsmituðum hefur farið hratt í nokkrum Evrópuríkjum að undanförnu og þá helst á Spáni og í Frakklandi.
Nýsmituðum hefur farið hratt í nokkrum Evrópuríkjum að undanförnu og þá helst á Spáni og í Frakklandi. EPA/Marcial Guillen

Þjóðarleiðtogar heimsins brugðust varðandi undirbúning fyrir mögulegan heimsfaraldur. Ekki var hlustað á viðvaranir og fjárfestingar og pólitískur áhugi á undirbúningi var ekki nægjanlegur.

Þetta kemur fram í skýrslu frá nefndinni Global Preparedness Monitoring Board sem er nefnd á vegum Alþjóðabankans og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO.

Í skýrslunni, sem ber nafnið „Heimur í óreiðu“, segir einnig að viðvaranir hafi ítrekað litið dagsins ljós en lítið hafi verið hlustað á þær.

Þar segir einnig að viðbrögð við faraldri Covid-19 séu enn ekki nægjanleg og það sé að miklu leyti vegna skorts á forystu frá pólitískum leiðtogum. Ítrekað er í skýrslunni að heimurinn þurfi að læra af faraldri nýju kórónuveirunnar.

„Mistök við að læra lexíur Covid-19 og að bregðast við að grípa til aðgerða með tilheyrandi skuldbindingum, mun þýða að næsti faraldur, sem mun án efa eiga sér stað, mun hafa jafnvel verri afleiðingar,“ segir í skýrslunni.

Aldrei fleiri smitast á einum degi

WHO, segir að nýtt met hafi verið sett í fjölda smita kórónuveirunnar á einum sólarhring í gær. Staðfest smit í heiminum öllum voru tæplega 308 þúsund og hafa aldrei verið fleiri frá upphafi faraldursins. Fyrra met stóð í tæplega 307 þúsund smitum á sólarhring.

Þá létu 5.500 manns lífið í gær og er fjöldi látinna því kominn í 917 þúsund manns. Mesta aukningin í smitum er nú á Indlandi (94.372), í Bandaríkjunum (45.523) og í Brasilíu (43.718).

Allt í allt hafa rúmar 28 milljónir smitast, flest í Norður- og Suður- Ameríku.

WHO hefur einnig varað við því að dauðsföllum muni líklega fjölga í Evrópu í október og nóvember. Hans Kluge, yfirmaður stofnunarinnar í Evrópu, sagði að ástandið yrði erfiðara.

Nýsmituðum hefur farið hratt í nokkrum Evrópuríkjum að undanförnu og þá helst á Spáni og í Frakklandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×