Innlent

Hlær að „asna­legri“ um­sögn Sam­taka skatt­greið­enda

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sjálfur segist Smári ekki muna punktastöðu sína hjá Icelandair. Hún hafi nánast engin áhrif á líf hans.
Sjálfur segist Smári ekki muna punktastöðu sína hjá Icelandair. Hún hafi nánast engin áhrif á líf hans. FoVísir/Hanna

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, gefur lítið fyrir umsögn Samtaka skattgreiðenda um frumvarp fjármálaráðherra um fjáraukalög fyrir árið 2020, þar sem meðal annars er fjallað um hvort veita eigi ríkisábyrgð á 16,5 milljarða lánalínu til Icelandair Group. Samtökin hafa óskað eftir því að hver einasti þingmaður gefi upp möguleg hagsmunatengsl sín við Icelandair, þar á meðal vildarpunktastöðu sína hjá flugfélaginu, áður en þingið greiðir atkvæði um frumvarpið.

„Hahaha, ég las einmitt þessa umsögn í morgun og hugsaði með mér að "samtök skattgreiðenda" gætu varla verið asnalegri. Gott og vel að þingmenn eigi að gefa upp hlutabréfaeign ─ en það er nú þegar þannig að þingmönnum er skylt að gefa upp slíkt í hagsmunaskrá ─ en að biðja um vildarpunktastöðu er svolítið eins og að vilja fá uppgefið hvort fólk eigi inni einhverja punkta hjá Te og Kaffi eða inneign hjá Elko,“ skrifar Smári í stuttri Facebook-færslu sem hann birti í dag, þar sem hann deilir frétt Vísis af umsögn samtakanna.

Þá segir Smári að ef einhver þingmaður láti vildarpunktastöðu sína hjá Icelandair stýra afstöðu sinni til málsins, viti hann ekki alveg hvað hægt væri að segja um viðkomandi.

„Ég get þó upplýst að ég á ekkert í Icelandair, er í vildarklúbbnum, en man ekki punktastöðuna mína, enda hefur hún haft nánast engin áhrif á líf mitt. Á einnig nokkra punkta hjá Te og Kaffi, 8 krónur eftir af Ferðagjöfinni minni (löng saga), og enga inneign hjá neinum verslunum svo ég muni,“ skrifar Smári í lok færslunnar, sem sjá má hér að neðan.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.