Innlent

Svona er hægt að styrkja ónæmiskerfið á tímum kórónuveirunnar

Birgir Olgeirsson skrifar
Björn Rúnar Lúðvíksson, prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands.
Björn Rúnar Lúðvíksson, prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands. Vísir/Vilhelm
Prófessor í ónæmisfræði segir Íslendinga eiga að stunda ónæmisdekur á tímum kórónuveirunnar. Svefn, hreyfing, mataræði og andleg heilsa skipta þar mestu máli. Óreglufólk ætti að hugsa sinn gang alvarlega.

Í kórónuveirufaraldrinum hafa sprottið fram ýmsar fullyrðingar um hvað styrkir ónæmiskerfið til að berjast gegn veikindum og hvað ekki. Björn Rúnar Lúðvíksson, prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands, er ekki í vafa um hvað virkar.

„Það eru nokkur ráð sem við getum gert til að passa upp á að ónæmiskerfinu okkar líði vel, eða að stunda það sem ég kalla ónæmisdekur,“ segir Björn.

Hér er hægt að hlusta á viðtalið í heild við Björn:

Svefn

Efst á listanum er svefn.

„Svefninn skiptir miklu máli. Það hefur sýnt sig í rannsókn að ef fólk svaf fjóra tíma eða minna var það fjórfalt líklegra til að fá sýkingar, sérstaklega inflúensu og kvefpestir, heldur en þeir sem voru sex tíma eða lengur. Þannig að svefninn skiptir miklu máli.“

 

Andleg líðan

Andleg heilsa er næst.

„Við verðum að passa upp á að okkur líði vel. Að við séum ekki í of miklu áreiti og stressi. Það hafa margar rannsóknir sýnt að mikið álag, stress, þessi áföll sem fólk verður fyrir, rifrildi við maka eða sína nánustu, þetta skerðir starfsemi ónæmiskerfisins. Við eigum að reyna að vera í stresslitlu umhverfi.“

 

Hreyfing

Svo er það hreyfingin.

„Hún skiptir gríðarlegu máli. Og það þarf ekkert að hreyfa sig voðalega mikið til að efla ónæmiskerfið. Þá þarf fólk að hreyfa sig að lágmarki 15 til 20 mínútur, helst 20 til 40 mínútur, og það þarf ekki að vera oftar en tvisvar til þrisvar í viku. Ef fólk gerir þetta sýna rannsóknir ótvírætt að þú eflir starfsemi ónæmiskerfisins. Ekki bara varðandi það að sporna við sýkingu heldur líka gegn allskonar bólgum og verkjum. Þetta eru tiltölulega einföld ráð sem fólk á alltaf að gera án tillit til þess hvort við séum að fara í svona hörmungar eins og núna dynja yfir heimsbyggðina.“

Björn segir þetta einföld ráð og þarf ekki að tileinka sér þau lengi svo þau fari að skila árangri.

 

Fjölbreytt fæða

Fæðan skiptir einnig máli.

„Þar eru grunnfæðuflokkarnir sem skipta máli sérstaklega fyrir ónæmiskerfið okkar. Það er í fyrsta lagi snefilefni og í öðru lagi vítamín,“ segir Björn.

Þegar kemur að snefilefnum skiptir járn ónæmiskerfið miklu máli. „Fæstir eru með járnskort nema þá helst ungar konur á barnaeignaaldri. Svo sést þetta hjá fólki sem er með sjúkdóma þar sem gengur illa að fá járnið úr fæðunni. Það þarf að passa vel upp á járnbúskapinn því járnið hefur víðtæk áhrif á starfsemi líkamans og ónæmiskerfisins.“

Einnig þarf að passa upp á sink og selíum. Fátítt er þó að fólk sé með skort á þeim snefilefnum.

„Þetta er í fæðu en bara að taka steinefnatöflu dugar til að halda því í lagi.“

Þá víkur sögunni að vítamíni.

„Annars vegar þessi vatnsleysanlegu og þessi fituleysanlegu. Varðandi fituleysanlegu vítamínin er þar A-vítamínið sem skiptir máli fyrir ónæmiskerfið og E-vítamínin. Þetta hjálpar ónæmiskerfinu að starfa eðlilega. Það er fátítt að fólki skorti þetta. Þetta er mikið í græna grænmetinu okkar, hnetum, fiski, kjúklingi. En það er fátítt að fólki skorti þetta. D-vítamíni skiptir máli fyrir ónæmiskerfið og fyrir marga aðra starfsemi í líkamanum. Heilbrigð bein og annað. Sérstaklega hjá okkur sem búum á norðlægum slóðum er D-vítamín skortur ekki óalgengur. Það er mikilvægt að fólk hugsi um D-vítamínið. Að lágmarki á fólk að taka 600 og upp í 1000 einingar á dag, nema þeir sem eru í skorti. Þeir þurfa að fara í 2000 einingar á dag. Lýsi eða D-vítamíni viðbót myndi hjálpa. En aldrei að taka ofurskammt af fituleysanlegum vítamínum vegna þess að það getur gefið hættuleg eitrunareinkenni því líkaminn getur ekki losað sig við umframmagnið.“

Í vatnsleysanlega vítamíninu er C-vítamínið efst á blaði.

„Það er sjaldgæft hér á Íslandi í dag að það skorti. Það er í sítrusávöxtum og bætt hér og þar. Fólínsýran er líka mikilvæg. Það kemur fyrir að fólk skorti það en það er fátítt. Þetta eru þessi megin stóru flokkar af fæðuefnum sem fólk þarf að nota,“ segir Björn.

Og hvað á þá að borða?

„Það á að stunda eðlilegt mataræði. Borða litskrúðuga ávexti. Ef þú borðar marga liti er líklegt að þú sért að fá mismunandi næringarefni. Borða grænmeti og rótarávextina og hneturnar.“

Ef fólk fylgir þessum ráðleggingum ætti það að vera með nokkur ánægt ónæmiskerfi að sögn Björns.



Óreglufólk hugsi sinn gang

Þeir sem reykja, veipa, nota tóbak í nef eða vör, drekka óhóflega, ættu að skoða sín mál nú þegar faraldur geisar.



„Þetta er frábært tími til að taka til í eigin ranni og fara að stunda heilbrigðara líferni. Hætta að reykja, hætta að taka í nefið. Hætta að veipa eða að taka í vörina. Óhófleg drykkja er ekki góð. Það hefur líka komið í ljós í þessum faraldri, þeir sem hafa gert það hafa farið illa út úr þessu. Ef einhvern tímann var ástæða til að breyta lífi sínu í rétta átt og stunda heilbrigðara og betra líferni, hætta óreglunni og reykingum og öðru slíku, þá er þetta klárlega tíminn. Við vitum það að þeir sem eru í hættu eru þeir sem eru stunda óheilbrigt líferni, fyrir utan þá sem eru orðni aldraðir og ónæmisbældir, þá er þessi hópur, ungt fólk sem er að fara illa með sig. Nú er tíminn til að hætta að reykja og veipa.“

 

Góð áminning um gildi bólusetninga

En mun öflugra ónæmiskerfi hjálpa fólki í baráttunni við kórónuveiruna?

„Það sem við vitum að þeir sem eru veikburða og eru með skertar ónæmisvarnir fara verr út úr þessari sýkingu. Þannig að við erum að ráðleggja okkar skjólstæðingum að fara varlega sem eru með skertar ónæmisvarnir og stunda þessar góðu ráðleggingar sem eru inni á heimasíðu Landlæknis varðandi almennar smitvarnir," segir Björn. 



Bjartsýni að búast við bóluefni eftir eitt eða tvö ár

Út frá ónæmisfræðinni er fyrst og fremst beðið eftir bóluefni við þessari kórónuveiru.

„Og við fáum bóluefni gegn þessu vágesti, en það mun taka tíma. Björtustu menn eru að spá því að jafnvel innan eins til tveggja mánaða gætu verið hafnar tilraunir á fólki fyrir bóluefni. Mér finnst það mjög bjartsýnt. En það myndi þýða að við værum komin með bóluefni eftir eitt eða tvö ár, sem er líka bjartsýnt. En það endurspeglar það hvað bóluefni skipta okkur miklu máli. Þetta er líka mikilvæg áminning fyrir fólk sem hefur verið að tala niður mikilvægi bóluvarna og bólusetninga. Hvernig ástandið var fyrir rúmri öld síðan, þegar þjóðfélagið var að glíma við hluti eins og barnaveiki, mislinga og kíghósta. Þá var ástandið verr varðandi dánartíðni. Sérstaklega gagnvart börnunum sem við erum sem betur fer ekki að horfa upp á í þessum faraldri. Það held ég að sé góð áminning fyrir alla hvað bólusetningarnar skipta miklu máli og það að vera með gott ónæmiskerfi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×